149. löggjafarþing — 88. fundur,  2. apr. 2019.

dýrasjúkdómar o.fl.

766. mál
[19:30]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Herra forseti. Það hefur verið haft langt mál um þetta frumvarp í dag og ég ætla ekki að lengja það neitt mjög mikið enda fer því fjarri að ég telji mig vera sérfræðing á þessu sviði, utan þess að vera maður sem áratugum saman hefur neytt íslenskra landbúnaðarvara með mikilli ánægju. Ég er sem sagt neytandi en ég hef ekki fengist neitt við framleiðslu á landbúnaðarvörum.

Mér hefur þótt þess gæta dálítið í umræðum í dag um þetta mál að hér hefur verið talað út frá hagsmunum framleiðenda landbúnaðarvara og því einhvern veginn slegið föstu að hagsmunir framleiðenda fari ævinlega saman við hagsmuni neytenda í þessum málum. Ég, herra forseti, leyfi mér að vera svo djarfur að halda því fram að það þurfi ekki endilega alltaf að vera svo. Það geti með öðrum orðum vel verið að íslenskir neytendur hafi hagsmuni af því að fá að kaupa innfluttar landbúnaðarvörur. Ekki bara vegna þess að innfluttar landbúnaðarvörur séu ódýrari heldur jafnvel hugsanlega líka vegna þess að innfluttar landbúnaðarvörur kunni í einhverjum tilvikum að hafa til að bera meiri gæði en innlendar landbúnaðarvörur.

Ég geri mér grein fyrir því, herra forseti, að þetta er mjög djörf fullyrðing hjá mér og kannski nánast goðgá í þessum ræðustól að halda öðru eins fram. Ég hef samt þennan grun að það sé alveg hugsanlegt að í einhverjum tilvikum, kannski undantekningartilvikum, séu erlendar landbúnaðarvörur jafnvel betri en íslenskar landbúnaðarvörur.

Það er þó kannski ekki aðalatriði þessa máls sem við erum að fást við hér í dag heldur hitt að það er fallinn dómur um að Íslendingar hafi ekki staðið við þær skuldbindingar sem þeir hafa undirgengist. Eins og hv. þm. Haraldur Benediktsson sagði í ágætri ræðu fyrr í dag: Dómum þarf að hlíta. Það er einfaldlega svo. Kannski er málið bara útrætt þegar sú setning hefur verið sögð. Þarna er um að ræða hagsmuni. Það eru margvíslegir hagsmunir í þessu máli. Ég tæpti hér á því að hugsanlega þyrftum við líka að huga að hagsmunum neytenda en ekki eingöngu hagsmunum framleiðenda landbúnaðarvara. Hér er líka um að ræða hagsmuni sjávarútvegsins, stórfellda hagsmuni, af því að flytja út sjávarútvegsvörur, flytja út fisk og markaðshagsmunir því tengdir og þarf ekki að fara mörgum orðum um mikilvægi þeirra viðskipta. Svo þarf kannski ekki heldur að hafa mörg orð um, en þó finnst manni stundum eins og það kunni að vera ástæða til að minna á það í þessari umræðu, mikilvægi frjálsra viðskipta og í tengslum við það mikilvægi frjálsra viðskipta fyrir smáþjóð á borð við Íslendinga, mikilvægi þess að farið sé að reglum og farið sé eftir samningum sem gerðir hafa verið, mikilvægi gagnkvæmni í viðskiptum fyrir svona þjóðarkríli eins og Íslendinga. Íslendingar eiga allt undir því að aðrar þjóðir virði samninga við Íslendinga en láti ekki afl ráða í þeim viðskiptum vegna þess að Íslendingar eru vopnlaus lítil þjóð.

Það hefur margoft sýnt sig að Íslendingar hafa getað treyst alþjóðlegum stofnunum og alþjóðlegum dómum þegar á það hefur reynt. Jafnvel leyfi ég mér, herra forseti, að minna á Icesave-málið sem hefði ekki unnist nema fyrir það að alþjóðlegur dómstóll, sem við höfðum undirgengist lögsögu hjá og þær þjóðir sem við áttumst við þar, úrskurðaði Íslendingum í hag.

Það er mikið í húfi að við Íslendingar virðum alþjóðlegar skuldbindingar okkar. Hér er ekki um það að ræða að mínu mati að það sé yfirleitt möguleiki á því að víkjast undan þeim. Við þurfum að ráða fram úr því hvernig við förum að því að virða þessar skuldbindingar og mér sýnist að í þessu frumvarpi sé vel tekið á því.

Manni hefur stundum fundist eins og það hafi viðgengist ákveðin markaðsvernd fyrir framleiðendur íslenskra landbúnaðarvara, en hún hefur oft verið undir yfirskini neytendaverndar. Það hafa verið búnar til margs kyns hindranir undir því yfirskini að það sé verið að vernda neytendur. Það er jafnvel stundum eins og því sé slegið föstu að það séu hagsmunir íslenskra neytenda að búa við sem allra mestar viðskiptahindranir. Ég held að það sé nokkuð orðum aukið að svo sé, en það breytir þó ekki, og við megum ekki gleyma því, að ýmislegt sem um er rætt varðandi þetta tiltekna mál er raunverulegt áhyggjuefni. Sýklalyfjaónæmi er raunverulegt áhyggjuefni fyrir okkur öll og við getum ekki bara vísað því á bug og sagt að það skipti engu máli. Að það skipti engu máli að notkun sýklalyfja sé minni í íslenskum landbúnaði en í landbúnaði á meginlandi Evrópu. Það skiptir miklu máli og mikilvægt að það sé hugað vel að því og ég vænti þess að það verði gert í starfi nefndarinnar.

Það kunna líka að vera önnur rök fyrir tollvernd, sem koma að vísu ekki við þetta mál beinlínis vegna þess að það varðar ekki sjúkdóma. Það eru rök sem mér þykja hins vegar mjög gild, þ.e. þau rök að flutningur á matvælum skilur eftir sig mikið kolefnisfótspor og við vitum að það er ekki verðlagt. Það sýnir sig ekki í verði á alls kyns varningi sem hingað er fluttur með flugvélum það raunverulega verð sem við greiðum fyrir að nýta þennan varning og kaupa. Það er í vissum skilningi borgað með þessum varningi. Mín vegna mætti alveg hugsa sér einhvers konar gjald, kolefnisgjald, sem kæmi ofan á matvæli sem eru flutt með þeim hætti.

Engu að síður þá vil ég vara við því að við nálgumst þetta mál eða yfirleitt bara nokkur mál út frá einföldum andstæðupörum eins og mér hefur þótt dálítið áberandi í þessari umræðu. Annars vegar höfum við innlent, við höfum hreinleika, við höfum hollustu. Hins vegar höfum við útlenskt, óhreinleika, óhollustu. Það erum við á móti hinum. Við erum hrein, hinir eru óhreinir. Ég held að það sé ekki vænleg leið að fást við lausn svona mála að horfa á þau út frá þessum einföldu andstæðupörum.

Að lokum, af því að ég byrjaði á því að tala sem neytandi, þá er mér náttúrlega rétt og skylt að vitna um það að svona mestan part eru íslenskar landbúnaðarvörur afbragðsgóðar. Þó að hér yrðu flutt inn matvæli frá ýmsum löndum þá er ég alveg sannfærður um að ef ég fæ réttar upplýsingar um uppruna vörunnar þá muni ég sækjast eftir því að neyta frekar íslenskra landbúnaðarvara en vara frá löndum þar sem ég þekki síður til. Það kann að vera vegna þess að ég er ekki mjög ævintýragjarn í minni neyslu en ég held þó að þetta gildi um marga fleiri en mig. Ég vil ljúka þessari ræðu á að leggja áherslu á það. Ég held að það sé mikilvægt að neytendur fái að vita hvaðan vörurnar koma. Ef það er vel merkt og ef markaðssetningin á íslenskum landbúnaðarvörum er vel heppnuð og góð þá held ég að það sé ekkert að óttast í samkeppni fyrir íslenska framleiðendur við erlendan varning nema síður sé. Ég held að þetta gæti einmitt orðið lyftistöng. Ég held að umfram allt þá megi heimóttarskapur aldrei vera okkur leiðarljós þegar við erum að leysa mál af þessu tagi.