149. löggjafarþing — 88. fundur,  2. apr. 2019.

dýrasjúkdómar o.fl.

766. mál
[20:37]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að hv. þingmanni hafi tekist að hafa eitt rétt atriði í þessu andsvari, nefnilega að við tökum mjög lítið inn af sýklalyfjum í gegnum kjötát — vegna þess að dýrin sem við ræktum fá mjög lítið af sýklalyfjum. Þannig að þetta er alveg hárrétt hjá þingmanninum og svo sem skarplega athugað.

En hvaða lýðskrum er í því að vilja stíga varlega til jarðar í þessu stóra hagsmunamáli? Það er engin léttúð í því að þetta er stórt hagsmunamál og ég vona að hv. þingmaður sé mér sammála um það. Því þetta varðar bæði þessa 20.000 manna atvinnugrein og það að þjóðin fái heilnæma fæðu til að neyta.

En nú langar mig til að spyrja hv. þingmann: Gerir hann ekkert með varúðarorð vísindamanna hér á Íslandi sem hafa einmitt varað mjög við innflutningi á t.d. ófrosnu kjöti, nema að gengið sé þannig frá (Forseti hringir.) að það sé skimað þannig að það valdi ekki hættu? Gerir þingmaðurinn lítið úr(Forseti hringir.) þessum varúðarorðum eða varnaðarorðum?