149. löggjafarþing — 88. fundur,  2. apr. 2019.

dýrasjúkdómar o.fl.

766. mál
[20:56]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Hæstv. forseti. Þessi umræða hefur mestan part verið mjög góð. Menn hafa skipst á skoðunum af hreinskilni. Hins vegar datt inn ein ræða sem var gjörsamlega ómálefnaleg og full af ómerkilegri merkimiðapólitík. Í stað þess að fjalla um málið sem slíkt var sneitt að þeim sem taka þátt í umræðunni. Þetta heitir á íþróttamáli að fara í manninn en ekki boltann. Það er ekki til sóma, en ég ætla ekki þangað og við ætlum ekki þangað. Við ætlum að halda áfram að ræða það sem málið snýst um.

Þetta mál snýst um að neytendur á Íslandi geti gengið að öruggum matvælum. Það snýst um að landbúnaðurinn hér, þ.e. búsmalinn, verði ekki fyrir óæskilegum áhrifum, eins viðkvæmur og hann er fyrir utanaðkomandi áhrifum. Þetta snýst um að málið sé þannig búið að hægt sé að treysta því að einmitt þau skilyrði sem ég þuldi upp áðan standi.

Eins og málið liggur fyrir teljum við sem höfum rætt það mest í dag að svo sé ekki. Meðan við erum sannfærð um að svo sé ekki höldum við náttúrlega áfram að benda á að við teljum að æskilegra sé að nokkur tími fáist til að undirbúa gildistöku samkvæmt þessum lögum, að við verðum í stakk búin til að takast á við verkefnið þegar þar að kemur. Við höfum sagt að við séum ekki sannfærð að svo sé samkvæmt því plaggi sem liggur fyrir. Því verðum við að koma á framfæri mjög gaumgæfilega þótt það sé kallað einhverjum illum nöfnum sem ég nenni ekki að endurtaka.

Við teljum sannast sagna að hér sé farið of seint af stað og að þær ráðstafanir sem eru boðaðar nægi ekki til þess að markmiðið sem ég ræddi áðan náist, þ.e. að neytendur gangi að öruggum matvælum og að hingað verði ekki flutt vara sem hefur óæskileg áhrif á íslenskan landbúnað. Við teljum að málið, eins og það er reifað, standist ekki þær kröfur.

Eins og ég sagði í fyrri ræðu vona ég að þegar þetta mál gengur til nefndar fái það mjög vandlega umfjöllun. Ég vænti þess að nefndarmenn muni hlusta af athygli og taka mark á þeim ábendingum og umsögnum sem munu örugglega koma fram í málinu og að menn séu ekki hræddir við að taka ákvarðanir þótt einhverjum detti í hug að þær séu settar fram af annarlegum hvötum, eins og var reynt áðan. Við verðum bara, þau okkar sem erum hér inni, að reyna að gjalda varhuga við því að málið sé ekki nógu vel fram sett, við verðum að taka því þótt einhverjir séu nógu litlir í sér til að rífa málið úr þeim málefnalega farvegi sem það hefur verið í í allan dag og breyta því í persónulegt skítkast. Það er hins vegar viðkomandi hvorki til sóma né upplyftingar á annan hátt.

Frú forseti. Ég ítreka það sem ég hef áður sagt, ég vona að málið fái mjög vandlega og gaumgæfilega umfjöllun í nefndinni og að það komi inn í þingsal aftur í betri búningi en það er nú, betur reifað og að búið verði að bæta inn í það nauðsynlegum aðgerðum sem geti orðið til þess að það uppfylli þau skilyrði sem við höfum flest haft uppi í dag.