149. löggjafarþing — 88. fundur,  2. apr. 2019.

fiskveiðar utan lögsögu Íslands.

776. mál
[22:33]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Nú sit ég ekki við ríkisstjórnarborðið. Það getur vel verið að ég geri það einhvern tímann, en ég geri það ekki núna, svo að ég hef ekki þessar upplýsingar frá fyrstu hendi. Ég held að það sé rétt að hv. þingmaður spyrji ráðherra Vinstri grænna út í þessa hluti. Ég ætla ekki að hætta mér út á að fara að svara fyrir aðra í þeim efnum.

En eins og fiskveiðistjórnarkerfið er í dag eru ótímabundnar úthlutanir. Það liggur fyrir að þeim er úthlutað til ótiltekins tíma eins og við þekkjum. Þær eru ekki ævarandi. Það kemur líka skýrt fram í frumvarpi sem hv. þingmaður hefur dreift og er um uppboð eða útboð á makríl. Og Alþingi getur hvenær sem er lagt til breytingar varðandi fyrirkomulag á úthlutun aflaheimilda. Þeim er úthlutað til eins árs í senn og ég held að það sé mjög mikilvægt að halda því til haga.

Ég man eftir því þegar ég tók glímu, ásamt fleirum, til að reyna að gera breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu hér 2009–2013. Þá fékk ég álít frá virtum lögfræðingi sem var á þeim tíma, Magnúsi Thoroddsen heitnum, um að Alþingi gæti hvenær sem er, án þess að menn væru skaðabótaskyldir, gert breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu. Svo að það er bara í mínum huga verkefni sem er alltaf til staðar.

En það verður líka að vita hvenær það er einhver möguleiki á að framkvæma breytingar. Við Vinstri græn höfum verið hlynnt tímabundnum nýtingarsamningum. (Forseti hringir.) Það liggur alveg ljóst fyrir.