149. löggjafarþing — 88. fundur,  2. apr. 2019.

fiskveiðar utan lögsögu Íslands.

776. mál
[23:03]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Herra forseti. Áhugaverð umræða hefur verið um makríl, sjónarmiðin sem hafa verið sett fram eru að einhverju leyti gamalkunnug en ég vil undirstrika, þrátt fyrir að margir telji að tækifærið sé ekki til að skipa málum með aðeins öðrum hætti í tengslum við makrílinn en gengur og gerist í stóra fiskveiðistjórnarkerfinu, þá er það tækifæri ekki gengið okkur úr greipum. Það er einmitt núna, þegar við stöndum frammi fyrir því að bregðast við þeim hæstaréttardómi sem fallið hefur um makrílinn og bakað ríkinu skaðabótaskyldu. Þá er einmitt tækifærið til að staldra við og spá í hvað það er sem við hér á þingi getum gert, þessir ólíku flokkar sem hafa þó haft einhverja sameiginlega taug um breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu, t.d. um tímabundna samninga, sem ég hefði alla jafna talið að útgerðir landsins myndu taka fagnandi, því að við erum að tala um 20 ára samninga, hið minnsta, sem myndu veita 20 ára fyrirsjáanleika fyrir allar útgerðir. En um leið undirstrika með tímabundnum samningum að fiskurinn í sjónum, fiskveiðiauðlindin, er sameign þjóðarinnar. Mér fannst miður að heyra það fyrr í dag að verið væri að efast um út á hvað sameign þjóðarinnar gengi.

Það þarf náttúrlega að breyta stjórnarskránni og vonandi erum við að þokast nær því varðandi auðlindaákvæðið. Það þarf að gera og vonandi kemur það fyrr en síðar út úr fundi stjórnarskrárnefndar, ásamt auðlindaákvæðinu. Það er merkilegt að heyra iðulega verulegar efasemdir, ekki síst af hálfu lögfræðinga innan þingflokks Sjálfstæðisflokksins, um hvað þetta raunverulega þýði. Það sé í rauninni mjög erfitt að breyta fiskveiðistjórnarkerfinu, þó að alltaf komi setningin: Við getum gert það á hverju ári. En við vitum það, m.a. varðandi þau mál sem um ræðir að þau hafa bakað okkur skaðabótaskyldu gagnvart því hvað þetta þýði.

Við skulum líka vera minnug þess að í 1. gr. fiskveiðistjórnarlaga er einmitt sameignarákvæði um sameign þjóðarinnar á fiskveiðiauðlindinni og hefur oft verið sagt að það ákvæði hafi haldið heilli ríkisstjórn saman árin 1991–1995, ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks. Þetta er ekki eitthvert ákvæði, að hægt sé að fara í einhverja léttvæga leiki með það og segja: Hvað þýðir þetta? Eða útskýra sameignarhugtakið eingöngu út frá sjónarmiðum þeirra sem hafa gert út. Það er ekki hægt af því að fiskveiðiauðlindin er sameign þjóðarinnar og þá þarf að tryggja það enn frekar í sessi.

Ég vil líka draga það fram í frumvarpinu að merkilegt hefur verið, og það hefur komið fram í andsvörum mínum við þingmenn Vinstri grænna, að þeir hafi ekki gert fyrirvara um að hafa frumvarpið, sem hér um ræðir, með öðrum hætti, þrátt fyrir að hafa það í stefnuskrá sinni að hafa tímabundna nýtingarsamninga. Það er ekki þannig að við séum að kollvarpa stóra fiskveiðistjórnarkerfinu, eins og ég hef bent á. Við erum að tala um makrílinn. Við gætum farið leið sem væri skref að aukinni sátt, að mínu mati. Það er miður að upplifa það að ríkisstjórnarflokkarnir vilja ekki teygja sig að því og leggja sig ekki einu sinni fram um það.

Ég er kannski ekki að setja fram miklar kröfur hvað það varðar gagnvart Framsóknarflokki og Sjálfstæðisflokki, en ég hefði talið eðlilegt að Vinstri græn hefðu a.m.k. sett fram einhverjar skoðanir eða tekið umræðu um að fara í tímabundna samninga, að ég tali ekki um markaðsleið þegar kemur að makrílnum. Það hefur því komið fram að sá metnaður var ekki til staðar. Sagt var áðan: Við ætlum ekki að fara að kollvarpa öllu fiskveiðistjórnarkerfinu. Það er einmitt ekki það sem hér um ræðir. Hér er einstakt tækifæri fyrir þingið og þær réttlætistaugar sem tikka vonandi einhvers staðar enn þá meðal þingmanna stjórnarflokkanna í þessu máli, að reyna að leiðrétta í litlum skrefum það óréttlæti sem er enn innbyggt í íslenska fiskveiðistjórnarkerfinu.

Ég hef margoft sagt — og ég ætla ekki að fá að heyra það enn og aftur að það eigi að kollvarpa kerfinu eða að við höfum ekki skilning á því hvað útgerðin eigi að gera — að íslenskur sjávarútvegur er í fremstu röð. Það á ekki að umbreyta fiskveiðistjórnarkerfinu, kvótakerfinu, eins og það er núna. En sátt verður að nást um greiðslur fyrir aðganginn að auðlindinni. Á meðan það er ekki verður allt fiskveiðistjórnarkerfið alltaf undir. Það finnst mér ekki ákjósanlegt. Mér finnst það einfaldlega ekki ákjósanlegt með þetta mikilvæga kerfi okkar, fyrirmynd að mörgu leyti fyrir margar aðrar þjóðir, sjálfbært fiskveiðistjórnarkerfi og sem byggir á ákvörðun vísindamanna. Við höfum aukið verðmætasköpun í greininni og því á ekki að breyta. En menn verða að fara að leggja sig fram um og nota þá tækifærin þegar þau gefast til að reyna að teygja höndina aðeins út og sýna fram á að það sé einhver meining í þeim hugsjónum sem ég hélt að væri m.a. innan Vinstri grænna, að ná einhverri sanngirni og réttlæti varðandi úthlutun verðmæta eins og makríllinn er.

Ég tek undir það sem hér hefur verið sagt um smábátana. Við þurfum að huga sérstaklega að þeim í þessu máli. Ég vil geta þess að við í Viðreisn ásamt þingmönnum fleiri flokka, Pírata og Samfylkingarinnar, höfum lagt fram frumvarp varðandi stjórn veiða úr makrílstofninum. Þar er sérstaklega tekið fram að 5% þeirra aflahlutdeilda viljum við að sett verði á markað. Við erum að tala um 20 ára samning, mikinn fyrirsjáanleika fyrir útgerðirnar. Við erum að tala um að af heildaraflamagninu, aflahlutdeildinni, verði 5% tekin — við skulum hafa það hugfast að mesta hlutfall smábáta var 4,8% — við leggjum til að 5% verði boðin á markaði þar sem eingöngu smábátum verði leyft að bjóða í þann þátt. Það er því verið að koma með mjög afgerandi hætti til móts við smábátana. Þetta þarf auðvitað að laga í því frumvarpi sem hér um ræðir.

Ég heyrði talsmann Samfylkingarinnar, hv. þm. Oddnýju Harðardóttur, ræða um uppboðsleiðina. Við höfum verið að tala um markaðsleið, við höfum talað um að tímabinda samningana til 20 ára og setja 5% á markað hverju sinni og ekki síst að það sem kemur fram í uppboðum fari síðan í sérstakan uppbyggingarsjóð landsbyggðarinnar, til þeirra svæða þaðan sem veitt er og greitt er.

Þegar við förum yfir umsagnir sem hafa komið um þessa útfærslu, þá er engin eining. Halldór Árnason skrifar, með leyfi forseta:

„Það er staðreynd að fjölmargar smábátaútgerðir hafa lagt í umtalsverðan kostnað við að útbúa sig fyrir makrílveiðar. Allt stefnir í að þær fjárfestingar hafi verið til einskis.“

Síðan segir Reykjaneshöfn, með leyfi forseta:

„Fyrirhugaðar breytingar sem stefnt er að með þessu frumvarpi munu hafa neikvæð áhrif á þær tekjur sem Reykjaneshöfn hefur af þessari þjónustu. Sama gildir um þær landvinnslur sem tekið hafa á móti þessum afla í gegnum hafnir Reykjaneshafnar. Reykjaneshöfn mælir á móti því að af þessari breytingu verði nema tryggt verði að smábátar eigi sama aðgang að þessum veiðum og þeir hafa haft hingað til.“

Þorbjörn hf., Nesfiskur ehf. og Rammi hf. segja m.a., með leyfi forseta:

„Því er ljóst að með ofangreindum lögum er verið að færa áunnin verðmæti frá einum flokki skipa til annarra og er því mótmælt.“

Dómur Hæstaréttar var áfellisdómur. Auðvitað. Tækifærið á sínum tíma var ekki notað, en okkur er að gefast annað tækifæri, nýtum það, segi ég. Dómurinn átti í rauninni ekki að koma á óvart því að í áliti umboðsmanns Alþingis frá 2014 segir m.a. að það hafi öllum aðilum verið ljóst að stjórn veiðanna væri haldin ógildingarannmörkum, líkt og rakið var í umsögn uppsjávarfélaganna og kemur fram í greinargerð með frumvarpinu. Líka er áætlað, vel að merkja, að frumvarpið muni hafa áhrif á það að tekjur ríkissjóðs dragist saman um sem nemur 1,5 millj. kr. króna á ári.

Í áliti starfshóps ráðherrans kemur fram að löggjafinn hafi rúmar heimildir til að skipa málum eftir því sem hann telur sanngjarnt og eðlilegt. Ég tek undir það.

Þegar við lesum yfir umsagnirnar er ljóst að ekki er sátt til staðar um frumvarpið. Það er svo sem ekki fyrsta sjávarútvegsfrumvarpið sem ekki er sátt um, en það hefði mátt búast við því að reynt hefði verið að fara einhverja aðra leið en að fara í það að framlengja núverandi fiskveiðistjórnarkerfi. Þá er bara best að segja það hreint út. Vinstri græn ætla að leggja niður sínar hugsjónir, sín vopn varðandi það að reyna að berjast fyrir breytingum á fiskveiðistjórnarkerfinu.

Það kemur svo sem ekki á óvart — hvalveiðarnar, sem Vinstri græn voru algjörlega á móti, þau eru búin að kyngja því. Ísland er eina ríkið í heiminum sem hefur hafið veiðar á langreyði og það er gert með stuðningi Vinstri grænna. Það kemur því í rauninni ekkert lengur á óvart þegar við ræðum aðkomu Vinstri grænna að þessu.

Líkt og fram kemur í áliti starfshóps ráðherra, og vert er að draga það fram, hefur hann ekkert val um það að viðhalda þeirri veiðistjórn makrílveiða sem hefur verið nokkurn veginn óbreytt frá árinu 2011. Hann hefur aftur á móti val um það hvaða leið verði farin til að tryggja nauðsynlegar réttarúrbætur og viðhalda því ekki þessu ólögmæta ástandi.

Val ráðherrans, hæstv. sjávarútvegsráðherra sem er búinn að standa sig svo asskoti vel hér fyrr í dag undir hatti landbúnaðarráðherra, er ekki einungis þeir fjórir kostir sem taldir eru í greinargerð með frumvarpinu. Það kemur reyndar fram þar, eins og hann nefndi í ræðu sinni, að valkostirnir séu ekki tæmandi taldir. Ég saknaði eins valkostar, eins og ég nefndi áðan, að úthluta ekki aflahlutdeild með boðvaldi ríkisins í enn eitt skiptið, heldur nýta einstakt tækifæri sem hér er til staðar til að láta reyna á markaðsleið í sjávarútvegi á sanngjarnan hátt með tímabundnum samningum, þannig að fyrirsjáanleiki verði fyrir útgerðirnar.

Hæstv. forseti. Ég trúi á markaðinn. Ég trúi því að markaðurinn sé betri til að ákveða verðið á makrílnum en stjórnmálamenn, eftir því hvernig þeir vakna upp hverju sinni og hvernig stöðu þeir eru í hverju sinni. Ég treysti því frekar að markaðurinn ákveði og finni hið rétta verð, hið sanngjarna verð. Því að erfitt er fyrir okkur að meta það hvað er hið sanngjarna verð.

Ég sakna þess að ekki skuli vera metnaður hjá markaðssinnuðum flokkum, alla vega á hátíðarstundum, að þeir taki skref og segi: Allt í lagi við skulum reyna að koma til móts við það að reyna að ná einhverri sátt. Tökum lítil skref, en tökum þau í tengslum við makrílinn.

Leiðirnar sem lagðar eru til í frumvarpi ráðherra eru allar því marki brenndar að valda einhverjum aðila tjóni í formi tekjutaps, ólíkum aðilum, eftir því hvaða leið verður fyrir valinu og mismiklu, en tjóni engu að síður og mér sýnist tjón smábáta eða lítilla og meðalstórra útgerða vera einna mest.

Í áliti starfshóps ráðherrans kemur líka fram að löggjafinn, eins og ég sagði, hafi rúmar heimildir til að skipa málum eins og hann kýs. Dómstólar hafa látið svo um mælt að löggjafinn geti kallað inn heimildir og úthlutað að nýju ef til stendur að koma á nýju fyrirkomulagi svo fremi að lágmarkskröfur séu virtar um jafnræði á efnislega mælikvarða. Það leggjum við í Viðreisn einmitt til að gert verði en ekki með þeim hætti sem ráðherra hefur lagt til. Það gefur augaleið varðandi skiptingu heildaraflans í hluti sem selja má á uppboðsmarkaði, að sú leið er ekki einungis til þess fallin að skapa mesta sátt í greininni um skiptingu aflaheimilda og gjaldtöku fyrir þær, heldur er hún líka sú leið sem sennilega mun skila því gjaldi sem næst kemst eðlilegu markaðsvirði auðlindarinnar, eins og ég gat um áðan. Líklegast er að sú leið verði til þess að finna þann punkt sem við erum alltaf að tala um, hið sanngjarna, réttláta gjald.

Ég hef sagt og er enn þá sannfærð um það að ef menn leggja sig fram og þora, beini ég þessu m.a. til Vinstri grænna, að fara með hugmyndir sínar inn í ríkisstjórnarsamstarfið og tala fyrir aukinni sátt um fiskveiðistjórnarkerfið, en ekki bara halla sér aftur og segja: Þetta bara þýðir ekki. Þetta er ekki hægt, þetta er allt ómögulegt og við getum ekki gert meira. En þetta er hægt því að hægt er að ná breiðri pólitískri sátt um fiskveiðistjórnarmálin og lái mér hver sem vill. Ég er ekki Pollýanna hér í ræðustól.

Ég vil undirstrika að við í Viðreisn og fleiri höfum lagt fram mál. Ég mun óska eftir því að það verði rætt hið fyrsta þannig að fjallað verði um það samhliða þessu máli ráðherra í atvinnuveganefnd. Mikilvægt er að nefndin fái tækifæri til að bera saman kosti þeirra leiða sem við leggjum til. Þetta er skýr valkostur, valkostur okkar flutningsmanna þess frumvarps og þess frumvarps sem við erum að ræða. Ljóst er að ranglæti fylgir frumvarpi sjávarútvegsráðherra meðan það er réttlæti sem við fáum í gegnum okkar frumvarp sem við í Viðreisn og fleiri lögðum fram í dag.