149. löggjafarþing — 89. fundur,  8. apr. 2019.

úthlutunarreglur LÍN.

[15:16]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Ég fagna því að samningar hafi náðst við helming launafólks og vil hrósa aðilum vinnumarkaðarins, ekki síst fyrir að knýja stjórnvöld til að leggja fram aðgerðir sem þau höfðu jafnvel hafnað fyrir nokkrum vikum.

Það er þó nokkuð hraustlega talað um að hér sé um að ræða allsherjarlífskjarasamning af hálfu stjórnvalda. Í fyrsta lagi er ekki verið að gera neinar grundvallarbreytingar á samfélaginu, þó að vissulega sé gleðilegt að aðgerðum sé beint að lægst launuðu stéttunum. Stjórnvöld gera t.d. enga tilraun til þess að taka á eignaójöfnuðinum sem er vandamál og fer vaxandi.

Í öðru lagi á eftir að semja við stóra hópa á opinberum markaði sem lagt hafa á sig langt nám og gegna samfélagslega dýrmætum störfum án þess að það sé metið að verðleikum. Í þriðja lagi snúa þessir samningar einfaldlega lítið að fjölda fólks. Ég get nefnt öryrkja, aldraða og ekki síst námsmenn. Um þá langar mig að ræða við hæstv. ráðherra.

Ungt fólk hefur orðið eftir í lífskjörum síðustu ár og býr við verri námslán en t.d. stúdentar á hinum Norðurlöndunum. Nú er svo komið að um helmingur íslenskra námsmanna þar taka lán í námslandinu. Þetta fólk getur valið sér búsetu hvar sem er á jörðinni og ólíklegt er að Ísland verði fyrsta val við núverandi aðstæður.

Í nýjum úthlutunarreglum kemur fram að framfærslan muni standa í stað og að hún taki ekki mið af verðlagsbreytingum. Það er í raun ígildi lækkunar þar sem óbreytt krónutala í verðbólgu felur auðvitað í sér lækkun á kaupmætti.

Því vil ég spyrja hæstv. ráðherra tveggja spurninga: Ætlar hún að horfa upp á þetta mikilvæga fólk dragast aftur úr í kjörum nú þegar aðrir eru að fá nauðsynlegar kjarabætur? Og í öðru lagi: Er hún ekki hrædd við spekileka frá landinu samfara slíkri þróun?