149. löggjafarþing — 89. fundur,  8. apr. 2019.

úthlutunarreglur LÍN.

[15:20]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir ágætisframboðsræðu. Ég styð hana auðvitað í því að breyta lánasjóðsreglunum. Hér er bara einfaldlega ekki verið að spyrja um það.

Það er rétt að frítekjumarkið hefur hækkað. Það hafði þó ekki hækkað í mjög mörg ár og var kominn tími til. Auðvitað er það þannig að námsmenn eiga ekki að þurfa að reiða sig á að vinna mikið með námi.

Það er ýmislegt annað í reglunum sem ég get sett út á. Námsmenn sem fara til útlanda fá einu sinni á námstímanum, á fjórum til fimm árum, að koma heim með styrk frá ríkinu.

En hér, herra forseti, er ég að spyrja ráðherra um grunnframfærslu. Ég þarf ekkert aðra ræðu um hvað hún hyggist gera og um kjark og þor og dug og framsýni núverandi ríkisstjórnar. Ég vil einungis fá að heyra: Mun hæstv. ráðherra beita sér fyrir því að grunnframfærslan hækki til samræmis við það sem aðrir hópar eru að fá núna í kjarasamningum?