149. löggjafarþing — 89. fundur,  8. apr. 2019.

markmið í loftslagsmálum.

[15:42]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Í síðustu viku sótti ég ráðstefnu rannsóknaseturs um norðurslóðir sem bar titilinn Viðvörun úr norðri. Mikilvægi þess að ná 1,5°C markmiðinu. Þar fjölluðu fjölmargir vísindamenn um áhrif loftslagsbreytinga á norðurslóðum, þar á meðal á Íslandi. Meðal annarra tók til máls dr. Michelle Schaeffer frá samtökunum Climate Analytic en þau vega og meta áhrif stefnu og aðgerða stjórnvalda í þjóðríkjum við að draga úr losun kolefnislofttegunda og hvernig þau uppfylla þau skilyrði sem ríki Parísarsáttmálans settu sér sjálf árið 2015.

Niðurstaðan er sláandi. Langflest ríki heims eru langt frá því að ná að uppfylla markmið sín samkvæmt Parísarsamkomulaginu og jafnvel þó að þeim takist það eru þau langt frá því að ná að takmarka losun gróðurhúsalofttegunda á þá leið að markmiðin um að halda hækkun hitastigs undir 1,5°C náist. Langflest ríkjanna stefna í þá átt að ná ekki einu sinni að takmarka losun við 3°C á heimsvísu. Miðað við núverandi stefnur og aðgerðir stjórnvalda stefnum við hraðbyri í að losun verði alltaf 4,4°C meiri fyrir árið 2100, en ef miðað er við bjartsýnustu spá verður losunin engu að síður 3°C.

Ísland eitt og sér mun skila mjög litlum árangri í samhengi hlutanna á heimsvísu þannig að ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Hvaða aðgerðum stendur ráðherra fyrir til að tryggja árangur af alþjóðlegu samstarfi, þá við aðra umhverfisráðherra heims eða á hvaða öðrum vettvangi sem það er, til þess að hvetja ríki heimsins til að standa við markmið sín og auðvitað ná lengra? Við þurfum að treysta á að öll önnur ríki standi við skuldbindingar sínar ásamt því að standa við okkar eigin.