149. löggjafarþing — 89. fundur,  8. apr. 2019.

markmið í loftslagsmálum.

[15:44]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni kærlega fyrir fyrirspurnina. Það er rétt að þegar horft er til þeirra sameiginlegu markmiða sem alþjóðasamfélagið hefur sett sér erum við ekki nægjanlega nálægt því markmiði að halda hlýnun jarðar innan 2°C, hvað þá 1,5°C ef miðað við 1750 eins og venjulega er gert.

Það var einu sinni fjarlæg framtíð, má kannski segja, að þurfa að takast á við loftslagsmálin en það er ekki þannig lengur. Við horfum núna til ársins 2030 í gegnum Parísarsamninginn og horfum síðan til miðbiks aldarinnar þegar við erum að tala um að ná jafnvægi, eða kolefnishlutleysi, þegar kemur að þessum málum.

Það sem Ísland hefur gert í loftslagsmálum alþjóðlega — og ég þakka kærlega fyrir þessa spurningu sem lýtur svolítið að því hvernig smáríki og eyríki geti reynt að hafa áhrif jákvæð áhrif í þessa veru — er það svo sem ekki bara sá ráðherra sem hér stendur heldur líka hæstv. utanríkisráðherra, forsætisráðherra og fleiri sem hafa á alþjóðlegum vettvangi haldið því á lofti að þennan málaflokk þurfi ríki heims að setja á oddinn.

En ég get nefnt sérstaklega yfirlýsingu forsætisráðherra Norðurlandanna frá því í janúar sl. sem kveður einmitt á um að Norðurlöndin vilji efla samvinnu í því augnamiði að ná meiri árangri, þar með talið að þrýsta á bæði Evrópusambandið og önnur ríki að setja sér metnaðarfyllri markmið, ekki síst núna þegar samkvæmt Parísarsamningnum á að leggja fram 2020 nýjar skuldbindingar ríkja. Í þessari yfirlýsingu forsætisráðherranna kemur einnig fram að stefna eigi að kolefnishlutleysi fyrir miðja öldina í öllum ríkjum Norðurlandanna. Næstu skref verða reyndar tekin í þessari vinnu núna á miðvikudag (Forseti hringir.) þegar umhverfisráðherrar Norðurlandanna hittast á fundi hér í Reykjavík.