149. löggjafarþing — 89. fundur,  8. apr. 2019.

þriðji orkupakkinn.

[15:49]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M):

Herra forseti. Það var hér á árum áður fyrir margt löngu stjórnmálaflokkur, sem er ákaflega mætur og virðulegu flokkur, reyndar ekki flokkur hæstv. utanríkisráðherra, sem boðaði þá leið í íslenskum stjórnmálum, sem hann kallaði hina leiðina. Kjörorðið var: Það er aðeins ein leið, hin leiðin.

Þetta rifjast upp, herra forseti, þegar lesið er álit Stefáns Más Stefánssonar og Friðriks Árna Friðrikssonar Hirst. Ekki verður annað séð en að þeir séu þeirrar skoðunar, ef ég má leyfa mér að orða það svo, að það sem beri að gera við þær aðstæður sem uppi eru varðandi þriðja orkupakkann sé að vísa þessu máli á grundvelli ákvæða í samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, til sáttameðferðar í sameiginlegu nefndinni. Á grundvelli ákvæða í sama samningi myndi sú meðferð lúta þeim málsmeðferðarreglum sem þar er kveðið á um.

Þeir segja: „Möguleg lausn gæti falist í því að þriðji orkupakkinn verði innleiddur í íslenskan rétt en með lagalegum fyrirvara um að ákvæði hans um grunnvirki yfir landamæri öðlist ekki gildi, enda sé slíkum grunnvirkjum ekki fyrir að fara hér á landi.“

Þeir segja og tvítaka það reyndar í sinni álitsgerð að sú leið sem hæstv. ráðherra sýnist hafa valið sé ekki gallalaus. Þess vegna spyr ég hæstv. ráðherra: Hvaða lögfræðilegar álitsgerðir liggja fyrir um (Forseti hringir.) þessa leið þar sem hún er krufin í lögfræðilegu tilliti þannig að unnt sé fyrir hv. alþingismenn (Forseti hringir.) að meta hana á slíkum grundvelli?