149. löggjafarþing — 89. fundur,  8. apr. 2019.

þriðji orkupakkinn.

[15:52]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegur forseti. Ég vil benda hv. þingmanni á að sjaldan eða aldrei hefur verið unnin jafn mikill undirbúningsvinna og í þessu máli þegar kemur að sambærilegu málum. Bara til að hafa þetta alveg skýrt, af því að hv. þingmaður vísar í Stefán Má Stefánsson og Friðrik Árna Friðriksson, ætla ég að lesa beint úr fréttatilkynningu, með leyfi forseta, og í lögmanninn, Stefán Má Stefánsson, prófessor, sem segir:

„Með þessari leið“ — sem lagt er upp með — „er stjórnskipunarvandinn settur til hliðar að sinni og reglugerðin innleidd á þeim forsendum að þau ákvæði hennar sem fjalla um flutning raforku yfir landamæri eigi ekki við hér á landi og hafi því ekki raunhæfa þýðingu. Það þýðir í raun að gildistaka þeirra er háð tilteknum frestsskilyrðum. Grunnforsenda þessarar lausnar er sú að þriðji orkupakkinn leggi ekki skyldur á Ísland til að koma á fót grunnvirkjum yfir landamæri heldur sé ákvörðun um það alfarið á forræði Íslands. Þetta er önnur þeirra leiða sem lögð var til í áliti okkar Friðriks og að okkar mati er upptaka og innleiðing gerðarinnar með þessum hætti heimil samkvæmt stjórnarskrá, enda er lagalegur fyrirvari um að þessi tilteknu ákvæði komi ekki til framkvæmda fyrr en lagagrundvöllurinn, þar með talið stjórnskipunarvandinn, hefur verið tekinn til endurskoðunar á Alþingi. Það er enn fremur mikilvægt að náðst hafi með orkumálastjóra Evrópusambandsins sameiginlegur skilningur hvað þessa grundvallarforsendu Íslands varðar og sérstöðu Íslands. Þótt slík yfirlýsing sé pólitísk í eðli sínu þá hefur hún engu að síður verulegt gildi og þýðingu í þessu samhengi,“ segir Stefán Már Stefánsson prófessor.

Virðulegi forseti. Ég held að þessi yfirlýsing, þessi ummæli, svari fyrirspurn hv. þingmanns mjög skýrt.