149. löggjafarþing — 89. fundur,  8. apr. 2019.

bætt umhverfi menntakerfisins.

325. mál
[15:57]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V):

Herra forseti. Ég fagna því að geta rætt aðeins um menntakerfið við hæstv. menntamálaráðherra og þá í tengslum við það hvernig við sjáum fram á að auka samkeppnishæfni Íslands. Ég beini fyrirspurn til hæstv. ráðherra: Hyggst ráðherra beita sér fyrir bættu umhverfi menntakerfisins, sérstaklega alþjóðaskóla og alþjóðadeilda í grunn- og menntaskólum, með það fyrir augum að auðvelda íslenskum fyrirtækjum að laða til sín erlenda sérfræðinga og fjölskyldur þeirra? Og ef svo er, þá hvernig?

Ég veit að ráðherra hefur fylgst vel með því á endurteknum þingum, ráðstefnum og fundum hvernig hægt er að auka samkeppnishæfni okkar Íslendinga. Ég ætla ekki að tala um krónuna og það að skipta um gjaldmiðil — þótt það sé náttúrlega efst á baugi. En það er iðulega bent á að umhverfið hér heima, þar á meðal menntakerfið, þurfi að vera þannig í stakk búið að við getum raunverulega verið valkostur og laðað hingað erlent vinnuafl og erlenda sérfræðinga; en líka valkostur fyrir íslenskar fjölskyldur sem hafa verið í útlöndum og við erum að reyna að fá heim, til þess að styrkja ekki síst frumkvöðla- og sprotafyrirtæki en líka stærri fyrirtæki. Við erum að sjá stór fyrirtæki sem þurfa að tengjast og laða til sín erlent starfsfólk og erlenda sérfræðinga, hvort sem við erum að tala hér um Marel eða Völku eða önnur fyrirtæki — á sviði hátækni.

Það skiptir mjög miklu máli að við tryggjum að aðbúnaður erlendra sérfræðinga hér á landi verði þannig að alþjóðleg starfsemi geti líka þrifist.

Hluti af því, eins og við vitum, er menntakerfið. Menntakerfið er gríðarlega mikill stuðningur og stoð við það hvernig við ætlum að byggja undir íslensk þekkingarfyrirtæki svo að þau geti boðið, bæði tímabundið en líka ótímabundið, fjölskyldum — og ég veit það sjálf úr mínum fyrri störfum sem ráðherra, bæði á sviði sjávarútvegs en líka menntamála, að það er oftar en ekki að sérfræðingarnir koma hingað tímabundið. Þeir koma ekki hingað með fjölskyldurnar, m.a. út af því að við bjóðum ekki upp á nægilega mikla valkosti í þá veru.

En um leið vil ég undirstrika að hér er starfrækt eitt og annað, m.a. alþjóðaskóli sem hefur haft gríðarlega mikla þýðingu fyrir þetta umhverfi.

En ég veit að hæstv. ráðherra hefur metnað og ákveðna sýn í þessa veru. Mig langar þess vegna að spyrja: Menntakerfið, alþjóðadeildirnar — hvernig getum við styrkt þær þannig að með menntakerfinu leggjum við okkar af mörkum til að efla og styrkja samkeppnishæfi á Íslandi?