149. löggjafarþing — 89. fundur,  8. apr. 2019.

skýrsla um nýtt áhættumat á innflutningi hunda.

552. mál
[16:12]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V):

Hæstv. forseti. Ég spyr starfandi hæstv. landbúnaðarráðherra að því hvað líði niðurstöðu skýrslu um nýtt áhættumat á innflutningi hunda sem skila átti í apríl 2018 og dr. Preben Willeberg gerir fyrir ráðuneytið. Hver eru nú áætluð skil? Rétt er að draga fram að það eru hátt í tvö ár síðan ákveðið var að fara í þetta. Þáverandi ráðherra ákvað að gera nýtt áhættumat sem hafði ekki verið gert í meira en 10 ár til að fara yfir það hvort hægt væri að nýta ný vísindi, bóluefni og öflugra eftirlit, ekki síst í Evrópu, til að auðvelda m.a. dýraeigendum, gæludýraeigendum, að taka með sér heim dýrin og auka dýramennt og minnka kvalir dýranna. Síðan spyr ég hvort Hundaræktarfélag Íslands hafi fengið áheyrnarfulltrúa á þessa fundi með sérfræðingum MAST og ráðuneytisins varðandi efnistök og niðurstöður skýrslunnar. Ég vil fá fram hjá ráðherra hreint og beint svar af því að hæstv. landbúnaðarráðherra hefur ekki svarað þessu alveg skýrt. Menn hafa hummað þessa skýrslu svolítið fram af sér. Hún átti að vera tilbúin fyrir tæpu ári síðan. Svo átti hún að vera tilbúin undir lok árs 2018, svo átti hún að vera tilbúin 1. apríl og nú er 1. apríl kominn.

Ég spyr: Hvað líður skýrslunni? Hver er staðan? Og ég spyr einnig hvort Hundaræktarfélag Íslands og önnur félög utan um gæludýr hafi ekki fengið áheyrn í tengslum við skýrsluna og hvort ekki verði örugglega hlustað á athugasemdir þeirra, m.a. við tillögugerð í kjölfarið á niðurstöðum skýrslunnar.

Það skiptir gríðarlega miklu máli að við getum veitt raunverulegt svar, ekki bara svar sem byggist á hentistefnu eða mikilli varnarbaráttu fyrir því að það megi ekki hafa málin þannig að það henti nútímanum. Það verður að segjast eins og er. Ég man þegar ég kom á þing þá var einangrunin sex mánuðir frekar en fjórir. Nú eru þetta fjórar vikur. Síðan hefur átt sér stað grundvallarbreyting í bólusetningum á gæludýrum. Og vel að merkja á Nýja-Sjálandi, sem er eyja eins og við, mjög strangt eftirlit með innflutningi á öllum dýrum, lifandi sem dauðum, er einangrunin að mig minnir 12 dagar. Þeir eru með mjög strangar reglur.

Því spyr ég: Af hverju getum við Íslendingar ekki verið með svipaðar reglur og þeir? Getum við ekki lært af þeim löndum sem gera þetta hvað best, eru með skýr viðmið? Þess vegna er brýnt að ég fái nú almennilegt svar frá ráðuneytinu og hæstv. ráðherra um það hvort skýrslan sé ekki örugglega tilbúin og hvort ekki sé ætlunin að kynna tillögur sem byggja á henni.