149. löggjafarþing — 89. fundur,  8. apr. 2019.

skýrsla um nýtt áhættumat á innflutningi hunda.

552. mál
[16:18]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V):

Herra forseti. Já, þetta er ágætisstjórnsýsla. Ég vona að ráðuneytið fari sem fyrst í það að hafa samráð. Ég vona að það verði haft samráð við gæludýraeigendur fyrir páska og haft samráð og þeir klukkaðir strax. Það er búið að taka næstum því tvö ár að fá eðlilegt yfirlit og reyna að fá heildarmyndina og mér finnst þetta í rauninni ekki boðlegt lengur. Þetta er ekki boðlegt gagnvart gæludýravernd eða dýravernd og þetta er ekki boðlegt gagnvart gæludýraeigendum heldur. Af hverju í ósköpunum getum við ekki litið til nútímans og lært af þeim þjóðum sem eru miklu strangari í öllum varúðarreglum varðandi innflutning en við á þessu sviði? Af hverju þarf alltaf að reisa girðingar? Af hverju? Við gætum fyllstu varúðar í því að gæta náttúrunnar, varðandi hreinleika, alls þess, alveg eins og allar aðrar þjóðir. Ég hvet ráðuneytið og starfandi hæstv. landbúnaðarráðherra að koma því til skila að það verði raunverulegt samráð og þessu fylgt eftir.

Ég óttast að þetta verði bara reglur sem snerti eingöngu hjálparhunda. Það er auðvitað fagnaðarefni að athuga með þá, að reglur verði rýmkaðar á því sviði. En það dugar ekki. Það er ekki nóg að mínu mati. Og ég minni á meðalhófsreglu íslensks stjórnsýsluréttar. Reglur eiga ekki að vera strangari en þær þurfa að vera. En þetta er bara að verða lenskan hjá þessari ríkisstjórn, að fara alltaf harðari og strangari leiðir, reisa girðingar og múra. Hvar sem hægt er að byggja múra þá eru þeir reistir.

Ég vil hvetja hæstv. starfandi landbúnaðarráðherra til að koma því til skila, um leið og ég þakka svarið, (Forseti hringir.) að ráðuneytið skoði þetta með mikilli velvild (Forseti hringir.) og fara að drífa sig af stað í þetta samráð sem boðað hefur verið í næstum því ár.