149. löggjafarþing — 90. fundur,  8. apr. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:01]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir skýra og góða framsögu og eins og fleiri fagna ég því að þetta mál sé loksins fram komið, því umræðan um þetta hefur verið alveg einstaklega furðuleg á köflum og raunar að mínu viti fengið að grassera allt of lengi ósvarað um hvað málið snýst og hverjir eru hagsmunir okkar og hagsmunir álfunnar, ef út í það er farið, af sameiginlegum innri orkumarkaði Evrópusambandsins, sem auðvitað eru talsvert viðameiri og mikilvægari hagsmunir en kannski er rætt um akkúrat í þessu máli.

En í einfeldni minni sýnist mér að með þessari ágætu yfirferð sé komið í ljós það sem sagt hefur verið allan tímann, að þetta mál, sem svo mikið hefur verið gert úr, hefur nær engin áhrif á innlendan orkumarkað, nema ef ske kynni nokkrar auknar valdheimildir til Orkustofnunar. Er það réttur skilningur hjá mér, hæstv. ráðherra?