149. löggjafarþing — 91. fundur,  9. apr. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[14:30]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Við hvað eru menn hræddir? (Gripið fram í.) Hvers vegna er ekki hægt að segja nei? (Gripið fram í: Það er von að spurt sé.) Hvað er svona hættulegt við það að segja nei við þessu? Geta hv. þingmenn svarað því? (Gripið fram í: Já.) Þetta fer þá bara fyrir sameiginlegu EES-nefndina. Við bara tökum á því þar.

Hv. þingmaður sagði áðan að umræðan væri ekki tímabær. Hvers vegna er þá verið að innleiða þennan orkupakka, hv. þingmaður, ef umræðan er ekki tímabær? Látum reyna á málið fyrir sameiginlegu EES-nefndinni. Það er rétti vettvangurinn í þessu máli, en ekki bara að samþykkja þetta möglunarlaust.

Það eru nú öll ósköpin og öll hræðslan við að segja nei í þessu máli. Þetta fer bara fyrir nefndina og við fáum þá undanþágu þar. Það er rétti farvegurinn í stað þess að innleiða þetta og hafa svo ægilegar áhyggjur af því að við ætlum ekki að vera með neinn sæstreng. Hann kemur og þá verðum við tengd þessu sameiginlega orkusvæði. Þá mun þessi sameiginlega stofnun, sem hefur aðsetur í Slóveníu, sjá um verðlagningu á raforku o.s.frv. Kílóvattstundin í Danmörku kostar 43 kr. Hún kostar 18 kr. á Íslandi. Og haldið þið virkilega að við komum til með að njóta þess? Nei, það verður samræmt verð á alla línuna. Þessi orkupakki þýðir bara eitt fyrir Íslendinga: Hann þýðir hærra orkuverð til heimila og fyrirtækja í landinu.