149. löggjafarþing — 91. fundur,  9. apr. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[15:28]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið og kem fyrst inn á það sem hann nefndi, hvers vegna ég dveldi svo við orkupakka eitt og tvö. Ég gat þess að ég óskaði eftir að vera aftur settur á mælendaskrá og mun þá fara nánar í orkupakka þrjú. Þannig að ég hvet hv. þingmann til að hlusta í þeim efnum.

Það er nauðsynlegt að ræða orkupakka eitt og tvö vegna þess að sporin hræða í þessum efnum. Það er bara staðreynd sem við verðum að horfast í augu við að við innleiðingu orkupakka eitt og tvö hækkaði rafmagn til neytenda, heimila og fyrirtækja í landinu. Það er rétt að halda því til haga að hið sama mun örugglega gerast. Ég tel mig vera sannspáan í þeim efnum að þegar orkupakki þrjú verður innleiddur og hér verður kominn sæstrengur mun verðið hækka, vegna þess að rafmagn í Evrópu er mun dýrara en hér á landi og það er hagkvæmara fyrir (Forseti hringir.) Evrópusambandið að kaupa af okkur rafmagn. Þá mun það náttúrlega hækka, eins og hv. þingmaður þekkir, hvað eftirspurnina varðar.

Ég mun koma inn á þetta sem hv. þingmaður spurði um nánar í síðara andsvari.