149. löggjafarþing — 91. fundur,  9. apr. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[15:30]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Hér hafa Miðflokksmenn verið sakaðir um að hafa ekki lesið og ekki unnið heimavinnuna sína. Ég vil hvetja hv. þingmann til að lesa lögfræðiálit Stefáns Más og Friðriks. Þar er m.a. tekið fram að burt séð frá þessum sæstreng — og nú skulum við bara aðskilja hann — verði innleiðing orkupakkans að standast stjórnarskrá.

Það felur í sér að það er ákveðin óvissa um það. Þar á stjórnarskráin að sjálfsögðu að njóta vafans. Hins vegar er ljóst og alveg kristaltært að ef fyrirtæki eins og t.d. þýski raforkurisinn E.ON hefur tæknilegan undirbúning að rafstreng frá Íslandi dugir ekkert fyrir okkur að mótmæla því. Það er bara þannig. (Forseti hringir.) Málið verður á valdsviði Evrópusambandsins. Og það er hugsanlegt að þetta stangist á við EES-samninginn um magntakmarkanir á inn- og útflutningi. (Forseti hringir.) Það ríkir óvissa sem við verðum að fá niðurstöðu um. (Forseti hringir.) Um það snýst málið.