149. löggjafarþing — 91. fundur,  9. apr. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[15:46]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Við getum farið í ýmsar vangaveltur um hver sagði hvað og hvers vegna menn gerðu hlutina eins og gert var. Það er t.d. mjög fróðlegt að velta því fyrir sér hvers vegna Vinstri grænir styðja þetta mál. Hvers vegna styðja þeir þriðja orkupakkann? Hvers vegna voru þeir á móti fyrsta og öðrum orkupakka? Það væri mjög fróðlegt að fá svör við því. Hvers vegna sat Samfylkingin hjá við fyrsta og annan orkupakka? Geta menn svarað því? Það hljóta að vera ástæður fyrir því. Það er hægt að fara í ýmsar vangaveltur hvað þetta varðar.

Eitt er klárt í þessu máli, að EES-samningurinn er gjörbreyttur frá því að við skrifuðum undir hann til dagsins í dag. Hann er allt annar í dag en var þegar við skrifuðum undir hann og það veit hv. þingmaður. Það var t.d. hvergi rætt um landbúnaðarmál þegar við skrifuðum undir EES-samninginn á sínum tíma. Við áttum aldrei von á því að við þyrftum að flytja inn hrátt og ófrosið kjöt (Forseti hringir.) gegnum samninginn þegar við skrifuðum undir hann. Það sama á við um orkumálin. Það var aldrei minnst á (Forseti hringir.) að orkumálin kæmu til með að verða markaðsvara þegar við skrifuðum undir samninginn. Það er því margt í þessu (Forseti hringir.) sem hefur breyst og eðlilegt að við förum með það fyrir EES-nefndina og fáum niðurstöðu úr því.

Ég spyr hv. þingmann: Hvers vegna voru Vinstri grænir á móti orkupakka eitt og tvö en styðja orkupakka þrjú?