149. löggjafarþing — 91. fundur,  9. apr. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[16:28]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Fyrst hnaut ég um það sem hv. þingmaður sagði hér áðan, að umræðan væri lýðskrum, og ég held að hv. þingmaður verði að skýra það nánar út hvað hún á við með þessu því að í okkar málflutningi, Miðflokksmanna, höfum við lagt áherslu á að óvissa ríki um hvort málið standist stjórnarskrá, þ.e. ef einhver vafi er á því að málið standist stjórnarskrá er sjálfsagt að koma því á framfæri hér og meira en sjálfsagt, það er nauðsynlegt. Ég skil ekki alveg þennan málflutning hjá hv. þingmanni hvað þetta varðar, ef hún vildi skýra það nánar. Ég hef í málflutningi mínum rakið áhrif innleiðingar fyrsta og annars orkupakka á neytendur í landinu, hækkun á raforkuverði og að samfélagslegi þátturinn var tekinn út úr raforkufyrirtækjunum, þ.e. að óheimilt varð að niðurgreiða rafmagn til húshitunar á afskekktum svæðum og kostnað við að leggja rafmagn til afskekktari staða.

Ég tel það vera mjög góð rök í málinu og sýna fram á að sporin hræða þegar kemur að þriðja orkupakkanum. Ég held því að hv. þingmaður verði að skýra þetta nánar. Auk þess sem það vekur athygli að Samfylkingin sat á sínum tíma hjá við afgreiðslu fyrsta og annars orkupakka. Það væri líka fróðlegt að fá svar við því frá hv. þingmanni hvers vegna Samfylkingin sat hjá á sínum tíma.