149. löggjafarþing — 91. fundur,  9. apr. 2019.

raforkulög og Orkustofnun.

782. mál
[23:14]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Hæstv. forseti. Við þetta mál sem hér er lagt fram er ýmislegt að athuga og það eru ýmsar viðvörunarbjöllur sem hringja með þeim sem hafa áhyggjur af framsali valds til yfirþjóðlegra stofnana. Fram kemur í greinargerðinni að þær breytingar sem eru lagðar til megi rekja til innleiðingar þriðju raforkutilskipunarinnar um sameiginlegar reglur um innri markaðinn fyrir raforku. Mælt er fyrir um það og verður ekki betur séð á bls. 4, með leyfi hæstv. forseta, þar sem kemur fram:

„Með frumvarpinu er lagt til að Orkustofnun fái heimild til að áminna rekstraraðila og leggja á stjórnvaldssektir. Það er hluti af því að efla stofnunina í eftirliti sínu með aðilum á raforkumarkaði og auka sjálfstæði raforkueftirlits í samræmi við þriðju raforkutilskipunina.“

Það er sem sagt verið að búa til þennan svokallaða landsreglara sem er að finna í 37. gr. m.a. í tilskipun Evrópusambandsins nr. 72 frá 2009. Sú grein er býsna hrollvekjandi lestur vegna þess að það valdsvið sem er undirstrikað í þeirri grein reglugerðarinnar er í sjálfu sér ávísun á það sem koma skal, að Orkustofnun verði ríki í ríkinu og að hún verði, alla vega hvað þetta verkefni varðar, ekki undir stjórn íslenska ríkisins heldur sæki vald sitt til Brussel.

Hækkun raforkueftirlitsgjaldsins sem hér er boðað byggist á niðurstöðum skýrslu orkumálastjóra um rekstur raforkueftirlits undanfarin ár. Að sögn hefur verið tap af rekstrinum og tímagjald raforkueftirlits hækkað verulega og nú á að velta þeirri hækkun út í verðlagið, yfir á raforkukaupendur.

Og hvað er það sem m.a. fylgir þriðja orkupakkanum og við erum að taka inn, hverjar eru hinar nýju skyldur? Þær er líka að finna á bls. 4, með leyfi hæstv. forseta, þar sem segir:

„Nýjar skyldur á sviði neytendaverndar og eftirlits með smásölu- og heildsölumarkaði raforku. Athuganir á starfsemi raforkumarkaðar og ákvarðanir um að grípa til nauðsynlegra aðgerða til að stuðla að virkri samkeppni og tryggja að markaðurinn starfi eðlilega.“

Þetta er mjög opið ákvæði og maður hlýtur að spyrja sig, vegna þess að nú er hægt að skipta um raforkusala, þ.e. við neytendur getum skipt um þau fyrirtæki sem við verslum við, eins og tryggingafyrirtæki eða banka, án nokkurra hamla um það.

Það er líka sagt að kostnaðurinn sé vegna yfirferðar netmála ásamt eftirliti með veitingu jöfnunarþjónustu Landsnets.

Þriðja þátturinn er þátttaka í ACER. Við eigum sem sagt að greiða fyrir að taka þátt í ACER, sem er stofnun sem við höfum ekkert um að segja.

Númer fjögur, með leyfi forseta:

„Nýjar heimildir til beitingar stjórnvaldsviðurlaga.“

Það höfum við talað um áður, hægt er að leggja á sektir sem miða við allt að 10% af veltu einstakra fyrirtækja. Landsvirkjun gæti því setið uppi með 5 milljarða ef út í það væri farið, yrði fundið að starfsemi hennar.

Og í fimmta lagi, með leyfi forseta:

„Eftirlit og skýrslugerð um raforkuöryggi, sbr. 4. gr. tilskipunarinnar. “

Þarna er verið að breyta hluta Orkustofnunar í yfirþjóðlegt vald sem lýtur engu innlendu valdi til að fylgjast með að við högum okkur eins og Brussel þóknast. Við höfum hingað til búið við það að hafa þriðja til fjórða lægsta raforkuverði í Evrópu. Raforkuverð t.d. í Danmörku er u.þ.b. tvisvar sinnum hærra á kílóvattstund en hér er. En menn fullyrða að þeim ákvæðum sem verið er að taka upp fylgi engin hækkun. Þá ætla ég enn að vitna í Halla og Ladda, eins og ég gerist stundum undir þessum kringumstæðum og segja: „Mér þætti gaman að sjá það“. En þetta á allt eftir að koma í ljós.

Ég viðurkenni það vel að ég er mjög tvístígandi í þessu máli, eins og reyndar í öðru máli sem hefur verið rætt og er grein af sama meiði. Ég viðurkenni einnig að ég get ekki litið á það svona björtum augum að Ísland sé að eftirláta eftirlit með raforkumarkaði sínum í hendurnar á því fjölþjóðlega valdi sem ég ræddi áðan.

Og hvað fyrstu skylduna sem ég las upp varðar vil ég, með leyfi forseta, aðeins endurtaka:

„Athuganir á starfsemi raforkumarkaðar og ákvarðanir um að grípa til nauðsynlegra aðgerða til að stuðla að virkri samkeppni og tryggja að markaðurinn starfi eðlilega.“

Við búum við það, herra forseti, að vera með þrjú fyrirtæki í almannaeigu sem framleiða raforku á Íslandi, þ.e. Landsvirkjun með um 70% af markaðnum, 20% eru í höndum Orku náttúrunnar, sem var Orkuveita Reykjavíkur, og 10% í HS Orku sem blessunarlega hefur aftur færst undir íslenska eign að meiri hluta til. Það leit ekki vel út um tíma en loksins tóku íslenskir lífeyrissjóðir á sig rögg, gyrtu sig í brók og virðast vera að eignast meiri hluta í því fyrirtæki að tíu árum liðnum, þ.e. fyrirtækið er búið að vera í erlendri eigu í tíu ár. Hefði þetta ekki gerst hefði verið raunveruleg hætta á því, og það er náttúrlega raunveruleg hætta á því enn þá þegar þessar reglur taka gildi, að einstaka smáir eða smærri raforkuframleiðendur kærðu stærð Landsvirkjunar. Ég velti fyrir mér, ég hef svo sem ekki skoðun á því eða þekkingu, hvort það geti leitt til þess að við lendum í vandræðum þar um.

Þetta allt saman, þegar gluggi er opnaður í þá átt, veldur manni virkilegum áhyggjum vegna þess að við getum ekki haft eftirlit eða yfirumsjón með því sem þarna er verið að opna á. Menn hafa sagt að það sé bábilja að við séum með því að afsala okkur parti af eða hluta af umsjón og/eða yfirráðum yfir orkulindunum. Menn verða þá hreinlega að mínu mati að benda á hvar við erum að fara út af sporinu. Þeir sem hafa komið hér upp og barist um að vera pirraða gamalmennið í þinginu í dag hafa í sjálfu sér eytt meiri tíma í að ræða Miðflokkinn, sem er svo sem ágætt, það er fínt að hafa athyglina, í stað þess að taka málefnalega umræðu og ræða það sem er til umræðu.

Ég endurtek áhyggjur mínar og mun fyrir 2. umr. verða mér úti um mjög gagngera og gaumgæfilega og vel unna þýðingu á 37. gr. í tilskipun Evrópusambandsins nr. 72 frá 2009, vegna þess að þar er upplesturinn um hvað það er sem landsreglari eða raforkureglari á að hafa hlutverk og eftirlit með og hvaða vald hann hefur.

Ég ætla að vona að þegar þetta mál fer til hv. atvinnuveganefndar muni nefndin í fyrsta lagi kalla til sín fjöldann allan af sérfræðingum í málum sem varða akkúrat þetta þingmál, að nefndin láti þýða fyrir sig, ef það er ekki til nú þegar, þær greinar í tilskipunum Evrópusambandsins sem þarna liggja undir þannig að það sé enginn misskilningur. Menn hafa haldið því fram í ræðum í dag að það sé farið fram með misskilning og rangtúlkanir o.s.frv. Þá skulum við endilega girða fyrir það með því að hafa í nefndarstarfinu t.d. nákvæmar þýðingar á þeim greinum sem við erum að fjalla um og nefndin ætlar að fjalla um.

Í tengslum við þetta mál verður hv. atvinnuveganefnd líka að verða sér úti um óvilhallar skýringar á hlutverki og stöðu ACER. Það dugar ekki að menn komi og segi: Þetta er ekkert mál, þetta er ekkert til að hafa áhyggjur af. Við verðum að fá gaumgæfilega óvilhalla útskýringu á því hvað þetta batterí má gera og getur gert innan lands, til þess að við séum algerlega viss um að við kærum okkur um að afhenda það vald sem við ætlum að afhenda þeirri yfirþjóðlegu stofnun.

Auðvitað er það fagnaðarefni að auka neytendavernd, en ég spyr mig: Er það aukning á neytendavernd ef við erum að framselja vald sem gæti haft í för með sér veruleg áhrif á starfsemi t.d. Landsvirkjunar? Er það eitthvað sem við kærum okkur um? Það leynist enn efi, alla vega í mínu brjósti. Það stendur í góðum íslenskum málshætti, með leyfi forseta: „Ekki veldur sá er varar“. Þess vegna neita ég því harkalega að í þessu máli og í málinu sem við ræddum í gær og í dag hafi menn verið með hræðsluáróður. Þeir hafa einfaldlega kallað eftir bestu upplýsingum. Þeir hafa kallað eftir því að öllum efasemdum sem hægt er að eyða sé eytt. Ég skil ekki fólk sem hefur það í sér að hafa á móti því að við eyðum þeim vafa. Ég skil það ekki alveg.

Ég er svo gamall sem á grönum má sjá en ég hélt að ég myndi aldrei lifa það að hlusta á ræður, ég hef heyrt tvær eða þrjár, eins og þær sem hv. þm. Ari Trausti Guðmundsson hefur flutt á þessu þingi, náttúrusinninn, vísindamaðurinn. Ég hélt að ég myndi ekki lifa það að heyra slíkar ræður. Hann hlýtur að verða heiðursgestur á næsta landsfundi Sjálfstæðisflokksins og flytja þar ræður um orkumál. Ég held að það hljóti að vera. Það væri rökrétt framhald af því sem hann hefur rætt í þeim málum, bæði í dag og í gær. En lífið heldur áfram að koma manni á óvart þótt maður sé nokkuð við aldur. Það er eitt af því blessunarlega við að lifa þessu lífi.

Að því sögðu bið ég hv. nefndina um að meðferð þessa máls sem er undir verði eins nákvæm og eins vel unnin og hugsast getur, vegna þess að hagsmunirnir sem eru undir eru svo stórir að við höfum ekki efni á því að það sé kastað til höndum.