149. löggjafarþing — 91. fundur,  9. apr. 2019.

raforkulög.

792. mál
[23:31]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi á þskj. 1253, frumvarpi til laga um breytingu á raforkulögum, nr. 65/2003 (tilvísun í stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku). Með frumvarpinu er lagt til að við III. kafla raforkulaga verði bætt nýju ákvæði þess efnis að um tengingu raforkukerfis landsins við raforkukerfi annars lands í gegnum sæstreng fari samkvæmt stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku.

Tilefni frumvarpsins má rekja til þess að um nokkurra ára skeið hefur verið til skoðunar sá möguleiki að tengja raforkukerfi landsins við raforkukerfi annarra landa. Má þar m.a. vísa til skýrslna sem starfshópur á vegum stjórnvalda skilaði í júlí 2016 þar sem fram komu ýmsar greiningar varðandi hugsanlegan raforkusæstreng á milli Íslands og Bretlands. Með hliðsjón af því hversu umfangsmikið slíkt verkefni og slík ákvörðun yrði er talið eðlilegt og nauðsynlegt að framkvæmdin sé á hverjum tíma í samræmi við stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku og háð samþykki Alþingis. Frumvarpið er hér lagt fram til að taka af öll tvímæli þess efnis.

Frumvarp þetta býr til ákveðna tengingu yfir í þingsályktun nr. 26/148, um stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku, frá 11. júní 2018. Samhliða lagafrumvarpi þessu er því lögð fram tillaga til breytingar á þeirri þingsályktun um stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku. Í þeirri breytingartillögu er lagt til að kveðið verði á um að ekki verði ráðist í tengingu raforkukerfis landsins við raforkukerfi annars lands í gegnum sæstreng nema að undangengnu samþykki Alþingis. Jafnframt að það samþykki skuli liggja fyrir áður en framkvæmdir við slíka tengingu geta farið á framkvæmdaáætlun kerfisáætlunar Landsnets. Því til grundvallar skuli liggja heildstætt mat á umhverfis-, samfélags- og efnahagslegum áhrifum tengingar og framkvæmda vegna hennar.

Í núgildandi þingsályktun um stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku er að finna skýrar áherslur sem eru bindandi við gerð kerfisáætlunar, t.d. í 4. tölulið um að ekki verði ráðist í línulagnir yfir hálendið, og í 10. tölulið um að við val á línuleið fyrir raflínur skuli gæta að verndarákvæðum friðlýstra svæða. Hafa þau áhersluatriði sem fram koma í þingsályktuninni ákveðna stöðu að lögum þar sem fram kemur í 1. mgr. 9. gr. raforkulaga að flutningsfyrirtækið skuli byggja flutningskerfið upp að teknu tilliti til stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku.

Almennt er litið svo á að ákvörðun um hvort raforkukerfi landsins verði einhvern tímann tengt við raforkukerfi annars lands sé ávallt alfarið á forræði íslenskra stjórnvalda. Bent hefur verið á að innleiðing þriðja orkupakka ESB leggi engar skyldur á herðar Íslandi að samþykkja hugsanlegan sæstreng. Má þar vísa til lögfræðilegra álitsgerða sem lagðar hafa verið fram um þau efni. Um efnisatriði þriðja orkupakkans vísast almennt til tillögu utanríkisráðherra til þingsályktunar sem við höfum áður fjallað um. Enginn vafi leikur á því að íslensk stjórnvöld ákveða hvaða innlendi aðili myndi veita leyfi fyrir lagningu raforkusæstrengs og á hvaða forsendum. Nefna má að í yfirlýsingu norskra stjórnvalda í tengslum við innleiðingu þriðja orkupakkans er skýrt tekið fram að ákvörðun um lagningu nýrra sæstrengja sé ávallt á forræði norskra stjórnvalda. Hið sama gildir um Ísland. Það er þess vegna óhugsandi að sæstrengur yrði lagður til landsins gegn vilja Íslendinga og það er á valdi íslenskra stjórnvalda að ákveða hvort heimila skuli að leggja, eiga og reka raforkusæstreng til og frá Íslandi.

Hvað varðar forsendur fyrir slíkri ákvörðun skiptir einnig máli að sveitarfélög á Íslandi fara með skipulagsvald og hafa á þeim forsendum ákvörðunarvald um hvaða uppbygging skuli leyfð og á hvaða forsendum. Í því sambandi koma óhjákvæmilega til skoðunar þættir eins og áhrif á umhverfi, samfélag og fleira. Verði slík ákvörðun tekin á einhverjum tímapunkti í framtíðinni er jafnframt ljóst að gera þarf ýmsar breytingar á lögum varðandi leyfisveitingar fyrir slíkri framkvæmd sem og varðandi atriði er lúta að rekstri og eignarhaldi á slíkri framkvæmd og mannvirkjum hennar. Það myndi sem sagt kalla á margar lagabreytingar ef við yfir höfuð værum að hugsa um að leggja sæstreng. Það þarf þá að sjálfsögðu allt að fara í gegnum þingið. Fjölda leyfa innlendra stofnana þarf fyrir slíkri framkvæmd og það þyrfti að fara mjög ítarlega í gegnum þá þætti málsins á vettvangi Alþingis ef að því kæmi.

Hæstv. forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. atvinnuveganefndar og 2. umr.