149. löggjafarþing — 91. fundur,  9. apr. 2019.

raforkulög.

792. mál
[23:48]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka ráðherranum fyrir þennan netta útúrsnúning. (Gripið fram í.) Ég vissi bara ekki að Sigmundur Davíð hefði teiknaði rafstreng þarna inn. Það er hins vegar búið að koma fram og var í vinnugögnum í gær sem ég er því miður ekki með í höndunum núna, frásögn af fundi Camerons og Sigmundar Davíðs sem skýrir nákvæmlega hvaða fyrirvarar þar voru gerðir. Mér þætti vænt um að fá tækifæri, ég fæ það vonandi, til þess að geta komið þeirri dagskrá og þeirri útskrift í hendur ráðherrans þannig að hún þurfi ekki að vera með frekari útúrsnúninga um það mál.

Mér þykir hins vegar athyglisvert að það liggi ekki alveg fyrir, ráðherra hafi ekki á reiðum höndum hversu mikið er búið að eyða í undirbúning þessa verkefnis sem aldrei varð og ekki átti að verða. Ég segi: Ber er hver að baki nema sér bróður eigi.

Er ekki hægur vandi fyrir Landsvirkjun og fyrir ríkisstjórnina á hverjum tíma að benda þeim stórnotendum sem hér hafa keypt raforku alllengi á að það er ásókn erlendis frá í að setja upp gagnaver og fleiri fyrirtæki, ofurtölvur o.s.frv.? Ég get ekki séð af hverju í ósköpunum við þurfum endilega að hafa uppi í erminni, eins og ráðherra segir, að benda þessum fyrirtækjum á að það sé hægt að selja raforkuna úr landi til að halda þeim við efnið og fá þau til að greiða hærra verð. Ég held að það væri betra fyrir stjórnvöld að byggja frekar upp og reyna að fjölga þeim tækifærum sem eru hér á sviðum tækni og tölvuvera o.s.frv., en (Forseti hringir.) að standa í því að vera að veifa rafstreng framan í aðra.