149. löggjafarþing — 91. fundur,  10. apr. 2019.

breyting á þingsályktun nr. 26/148, um stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku.

791. mál
[00:21]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að lengja umræðuna. Ég er aðallega að leita að tilgangi fyrir framlagningu þessarar tillögu. Ég get ekki séð betur en að hún sé gjörsamlega tilgangslaus. Hún er reyndar í dálitlu ósamræmi við það sem við horfum upp á, því að hér segir, með leyfi forseta:

„Tilefni breytingarinnar má rekja til þess að um nokkurra ára skeið hefur verið til skoðunar að tengja íslenska raforkukerfið við raforkukerfi annarra landa. Hefur þar fyrst og fremst verið horft til Bretlands.“

Það er væntanlega þetta sprikl Landsvirkjunar sem menn eru að tala um þarna. En margt af því sem er í undirbúningi núna hér innan lands gæti verið undirbúningur að því að leggja sæstreng einhvern tímann í framtíðinni.

Nú ætla ég að taka upp sæstrengsumræðuna sem búið er að reyna að halda fram að ég hafi verið að stunda hérna í þrjá sólarhringa, sem er rangt. Ég hef ekki rætt sæstreng fyrr en nú.

Í undirbúningi er flutningslína, norðausturlína svokölluð, sem ber miklu meira rafmagn en við þurfum á að halda. Hún ber nægilegt rafmagn til þess að fóðra sæstreng, fyrir utan að búið er að veita 100 rannsóknarleyfi fyrir svokallaðar smávirkjanir sem eru 9,9 megavött, eða aðeins minni, til að falla undir radarinn varðandi umhverfisáhrif. 100 slíkar smávirkjanir og leyfishafinn er sá sami. Rannsóknarleyfishafinn er einn og hinn sami fyrir þessar 100 virkjanir. Við erum því ekkert að tala um einhverjar krúttlegar bændavirkjanir, að einhver bóndi norður í landi eða fyrir vestan sé að virkja bæjarlækinn. Við erum að tala um að einkafyrirtæki er búið að ná sér í 100 rannsóknarleyfi til að byggja 100 smávirkjanir. Þessi 100 leyfi, ef af virkjun yrði, gætu þá orðið til þess að framleidd yrðu í kringum 1.000 megavött, sem er allmikið afl og örugglega hægt að nota til að fóðra sæstreng ef til þess kæmi.

Við vorum áðan að fjalla um lagafrumvarp sem var í sjálfu sér sama efnis og þessi tillaga. Ég sé ekki betur við fyrstu sýn en að meira að segja í textanum í þessari tillögu séu atriði sem eru ósammála lagatextanum sem við vorum að fara yfir rétt áðan í frumvarpinu. Þannig að ég held að það sé full þörf á því að menn lesið þetta vel saman þegar málin fara til nefndar. Í öðru lagi hvet ég til þess að nefndin leiti að tilgangi fyrir þessu þingmáli. Ég held að það sé kannski fyrsta skrefið þannig að við getum komist að einhverju nýtilegu.

Það er fjarri mér að fara að lengja umræðuna mjög mikið en ég auglýsi eftir tilgangi með þessari þingsályktunartillögu sem liggur hér frammi núna.