149. löggjafarþing — 91. fundur,  10. apr. 2019.

breyting á þingsályktun nr. 26/148, um stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku.

791. mál
[00:29]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Forseti. Ég var líka að tala um þessa sömu línu. Við erum að tala um byggðalínuna. Við erum að tala um línu milli Blöndu og Fljótsdalsstöðvar. Frá Blöndu á Rangárvelli við Akureyri heitir hún Blöndulína 3. Frá Rangárvöllum að Kröflu heitir hún Hólasandslína 3. Og frá Kröflu í Fljótsdalsstöð heitir hún Kröflulína 3. Það þýðir ekkert að tala um eina línu og setja í það samhengi að Kröflulína 3 sé hugsuð fyrir sæstreng. Kröflulína 3 er hluti af byggðalínu landsins og ein af þremur línum sem tengir saman Norður- og Austurland. Ég frábið mér svona, að fólk sé ekki betur að sér þegar það talar um jafn alvarleg málefni af svona léttúð eins og hefur verið gert hér og í Kastljósinu í gær. Menn verða að vera með á hreinu hvað þeir eru að segja í svona málefnum. Þetta er eitt stærsta málefni landsbyggðarinnar í dag og ég hefði haldið að í þessum sal væru hv. þingmenn með það á hreinu. Þegar við tölum um svona málefni verða menn að vera með stærðirnar nokkurn veginn á hreinu og hvað við ræðum. Þetta er ekki norðausturlína. Þetta heitir bara Kröflulína 3 frá Kröflu í Fljótsdalsstöð, Hólasandslína 3 frá Rangárvöllum í Kröflu og Blöndulína 3 frá Blönduvirkjun á Rangárvelli við Akureyri. Þetta er allt hluti af þessum byggðarlínuhring

Mér finnst þetta reglulega slæmt. Mér finnst svo ámælisvert að við séum stödd þarna þar sem við ætlum að taka alvarlega umræðu um þessi mál. Ég held að það sé bara nauðsynlegt að ræða þetta frekar. Við tókum heilmikla umræðu um flutningskerfi raforku sem við samþykktum í júní sl. Við erum nýbúin að taka þessa umræðu. Þetta er ein veigamesta (Forseti hringir.) umræðan um uppbyggingu landsbyggðarinnar í dag. Við verðum greinilega að fræða allan þingheim betur um þessi mál.