149. löggjafarþing — 93. fundur,  10. apr. 2019.

landlæknir og lýðheilsa og réttindi sjúklinga.

757. mál
[19:54]
Horfa

Olga Margrét Cilia (P) (andsvar):

Forseti. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra út í fyrirhugaðar breytingar á 3. mgr. 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu. Með leyfi forseta, segir þar:

„Heimilt er að beina formlegri kvörtun til landlæknis vegna meintrar vanrækslu og mistaka við veitingu heilbrigðisþjónustu. Þá er notendum heilbrigðisþjónustunnar jafnframt heimilt að bera fram formlega kvörtun til landlæknis telji þeir að framkoma heilbrigðisstarfsmanna við veitingu heilbrigðisþjónustu hafi verið ótilhlýðileg.“

Þessa málsgrein á að taka úr lögunum og auk þess verður tekin út skylda landlæknis að taka fyrir slíkar kvartanir og orðalaginu breytt í: landlæknir sinnir.

Þau okkar sem hafa lært lögfræði sjá í fljótu bragði að þegar orðið „skylda“ er tekið út úr lögum þá minnkar réttur notenda kerfa þar sem réttur þeirra til að krefjast einhvers frá stjórnvaldinu hverfur. Auk þess segir í greinargerð um þessa breytingu á frumvarpinu að reynslan af því sem kveðið er á um í þeirri málsgrein sem ég vitnaði í sé að kvörtunarheimildinni sé, með leyfi forseta, „beitt sem tæki til að fá landlækni til að skera úr um mistök og/eða vanrækslu innan heilbrigðisþjónustunnar áður en einstaklingar taka ákvörðun um málshöfðun“.

Ég spyr einfaldlega: Er þessi notkun á úrræðinu ekki eðlileg að teknu tilliti til réttinda sjúklinga?