149. löggjafarþing — 93. fundur,  10. apr. 2019.

landlæknir og lýðheilsa og réttindi sjúklinga.

757. mál
[19:59]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Enn þakka ég fyrir spurningarnar. Varðandi ferlið, svo ég byrji á seinni spurningu hv. þingmanns, sem væntanlega vaknar hjá viðkomandi stofnun þegar athugasemd eða kvörtun berst, þá búa stofnanirnar yfir tilteknum ferlum sem lúta að því að skrá og halda utan um atvik. Þessir ferlar eru auðvitað mismunandi eftir því við hvaða stofnun er átt eða aðila eða veitanda heilbrigðisþjónustu. En í því samhengi vil ég nefna líka gæðaáætlun landlæknisembættisins þar sem gert er ráð fyrir að hver og ein stofnun setji sér mælikvarða og standi skil á þeim gagnvart embætti landlæknis þannig að það komist í raun enginn veitandi heilbrigðisþjónustu undan því að halda tölfræði til haga um öryggi og gæði þjónustunnar. Þetta er komið í innleiðingarferli og ég vænti þess að þetta ferli verði partur af því.