149. löggjafarþing — 93. fundur,  10. apr. 2019.

mat á umhverfisáhrifum.

775. mál
[20:33]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið og fagna því mjög og vona innilega að þetta sé einmitt til þess að einfalda kerfið.

Mig langar líka, virðulegur forseti, að koma því á framfæri, það er kannski meira ábending en spurning í þessum efnum og kannski getur hæstv. ráðherra aðeins farið yfir það: Var ástæða til þess að leggja þetta fram núna ef við erum svo að fara í heildarendurskoðunina?

Það er mikilvægt að þegar við förum í heildarendurskoðun á lögum um mat á umhverfisáhrifum þá séu einmitt skipulagslögin líka tekin fyrir, eins og ég held að hæstv. ráðherra hafi komið inn á í sinni ræðu. Það er ekki hægt að aðskilja þetta tvennt. Þá vil ég líka ítreka mikilvægi þess að kerfið sé þannig fram sett, eins og ég sagði áðan, virðulegur forseti, að almenningur og hagsmunaaðilar geti auðveldlega sett sig inn í það sem þar er fram sett og að við gefum almenningi tækifæri til að taka þátt í ferlinu fyrr. Á sama tíma getum við ekki verið með kerfi þar sem hægt er að kæra á hverju einasta stigi eða, eins og oft hefur verið, á síðasta stiginu. Þegar búið er að eyða öllum tímanum og peningunum í allar umhverfisskýrslurnar og alla vinnuna þá er kært á framkvæmdaleyfisstiginu.

Sér hæstv. ráðherra fyrir sér að með endurskoðuninni getum við gert þetta kerfi allt saman skilvirkara þannig að það þjóni enn betur tilgangi sínum og virki?