149. löggjafarþing — 93. fundur,  10. apr. 2019.

ríkisendurskoðandi og endurskoðun ríkisreikninga.

803. mál
[23:09]
Horfa

Frsm. forsætisn. (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Ætli ég megi ekki segja kannski að svarið sé að menn telja að þau lagaákvæði sem til staðar eru í dag séu fullnægjandi hvað þá þætti varðar. En þegar þetta er skoðað betur, án þess að ég geti sagt að ég sé útlærður í þessu, sést að útfærslan á hlutverki ríkisendurskoðanda hvað varðar tekjueftirlitið er miklu veikari í gildandi lögum. Það er fyrst og fremst tekið fram í 1. mgr. 3. gr. sem ég nefndi, að hlutverk ríkisendurskoðanda sé meðal annars að hafa eftirlit með tekjum en að öðru leyti hefur kannski þótt skorta á skýrleika þeirra ákvæða. Það er það sem hér er meiningin að bæta úr.

Hins vegar eru mjög ítarleg ákvæði um hlutverk Ríkisendurskoðunar hvað varðar bæði fjárhagsendurskoðun, þ.e. þá líka gjöldin sem slík, og stjórnsýsluendurskoðun þegar henni er beitt en það sem verið er að gera í raun og veru er að taka tekjueftirlitsþáttinn og gera hann nær því að vera hliðsettan með þessu eða þannig les ég í þetta.

Þessu er ríkisendurskoðandi sjálfur, sem að sjálfsögðu hefur haft mikið frumkvæði að því að vinna þetta frumvarp, betur bær til að svara. En hann hefur ekki málfrelsi á þingi þannig að ég mæli þá með því að hv. þingnefnd fari betur yfir þetta ef menn teldu ástæðu til að skerpa á einhverjum öðrum ákvæðum laganna í leiðinni sem væri þá á gjaldahliðinni eins og hv. þingmaður nefndi.