149. löggjafarþing — 94. fundur,  11. apr. 2019.

aðkoma ríkisstjórnarinnar að kjarasamningum og tengd mál, munnleg skýrsla forsætisráðherra. -- Ein umræða.

[11:34]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að óska samningsaðilum á vinnumarkaði til hamingju með kjarasamningana. Ég vona að farsæl niðurstaða fáist í þeim samningum sem fram undan eru. Ríkisstjórnin verðleggur framlag sitt við hina svokölluðu lífskjarasamninga á um 100 milljarða kr. á gildistímanum (Forsrh.: 80 milljarða.) sem stefnt er að verði fram í nóvember 2022. — 80 milljarða, segir hæstv. forsætisráðherra, en hvað um það.

Stór hluti þessarar fjárhæðar er nú þegar í fjármálaáætlun. Því má segja að þessi kynning ríkisstjórnarinnar hafi verið hálfgerð sýndarmennska, enda gekk hún brösulega. Ekki er því hægt að segja að þessar ráðstafanir hafi snúið beint að þessum tilteknu kjarasamningum. Því verður að svara hvað í þessu samkomulagi er ekki nú þegar í fjármálaáætluninni. Hvað kemur það til með að kosta ríkissjóð og hvernig á að borga það?

Ég vil víkja næst að húsnæðismálunum. Stuðningurinn við húsnæðismálin vekur óneitanlega upp margar spurningar. Ekkert er sagt um það hvað þessi aðgerð eigi að kosta og málið hefur ekkert verið rætt í fjárlaganefnd. Ríkissjóður á að leggja til eigið fé til íbúðakaupa almennings. Afborganir verða engar og vextir litlir í tíu ár. Hér er um að ræða opinn tékka frá ríkisstjórninni sem enginn veit hvaða afleiðingar kemur til með að hafa. Það vantar allt mat á þessa aðgerð og útfærslan liggur ekki fyrir. Er hugmyndin sú að ríkissjóður ætli að eiga hlut í fjölda íbúða? Samkvæmt fjármálaáætlun á að kostnaðarmeta öll frumvörp. Það hefur ekki verið gert og engar tölur liggja fyrir í þessum efnum.

Ég átta mig ekki alveg á fjármálastjórn ríkisstjórnarinnar. Hér er verið að ögra fjármálaáætlun, ef svo má segja, sem fjármálaráðherra er svo ánægður með. Fjármálaáætlunin á að vera eitt helsta stjórntæki ríkisins. Hvernig ætla menn að lenda þessum fyrirhuguðu aðgerðum í húsnæðismálum? Það að ríkið fari að leggja til eigið fé til íbúðarkaupa, nánast gefins í tíu ár, mun auka eftirspurn eftir húsnæði og síðan hækka verðið. Hvað með þá sem fá ekki aðgang að þessu kerfi? Er ekki verið að taka frá þeim? Þetta mun skapa vanda fyrir þá sem eru utan þess og er í raun dulin skattlagning. Þeir munu þurfa að greiða hærra húsnæðisverð. Hefur ráðuneytið gert rannsókn á því hvað húsnæðisverð kemur til með að hækka við þessa aðgerð? Hér er á ferðinni aðgerð sem er beint inngrip á markaðinn og getur hæglega skapað vanda. Ég vænti þess, í framhaldi af því að kjarasamningar hafa náðst við alla á vinnumarkaði, að ríkisstjórnin standi síðan við loforðin um að leiðrétta kjör eldri borgara.

Hæstv. forsætisráðherra minntist hér aðeins á flugfélagið WOW og gjaldþrot þess sem setti verulegt strik í reikninginn hvað kjaraviðræður varðar og hafði margvísleg neikvæð áhrif á efnahagsmálin. Fjármálaráðherra var spurður að því í Kastljósi að kvöldi sama dags og félagið varð gjaldþrota hvort stjórnvöld hefðu sofið á verðinum. Hann svaraði því neitandi. Margt bendir hins vegar til þess að svar ráðherra sé ekki rétt og Samgöngustofa hefði átt að setja flugfélaginu rekstrarlegar skorður á síðasta ári sem hefði getað komið því fyrir vind eða dregið úr þeirri hörðu lendingu sem nú hefur orðið.

Miðflokkurinn stóð fyrir sérstakri umræðu hér á Alþingi sl. haust um stöðu íslensku millilandaflugfélaganna og eftirlitshlutverk Samgöngustofu. Tilefnið var sérstaklega áhyggjur af rekstri flugfélagsins WOW. Í framsöguræðu minni á Alþingi rakti ég m.a. bágborna eiginfjárstöðu WOW en í júní á síðasta ári var eiginfjárhlutfallið komið niður í 4,5% sem er mjög lágt og sýnir að félagið átti lítið sem ekkert eigið fé til að halda rekstrinum gangandi. Auk þess hafði félagið ekki skilað ársreikningum. Undir þessum kringumstæðum hefðu viðvörunarljós átti að kvikna hjá eftirlitsaðilanum, Samgöngustofu, sem átti ekki að sitja aðgerðalaus hjá.

Flugrekstur er kerfislega mikilvægur eins og við þekkjum í hagkerfi okkar. Í umræðunni á Alþingi spurði ég samgönguráðherra sérstaklega hvort Samgöngustofa hefði gert álagsprófanir á flugfélögin. Ráðherrann svaraði ekki spurningunni sem leiðir líkur að því að það hafi ekki verið gert. Hún vekur auk þess athygli, hin mikla skuldasöfnun sem átt hefur sér stað gagnvart Isavia og skuld félagsins hvað varðar lendingargjöld upp á 2 milljarða.

Herra forseti. Ég tel að ríkisstjórnin hafi ekki staðið sig í eftirliti gagnvart félaginu WOW og það hefði verið hægt að koma í veg fyrir a.m.k. þessa hörðu lendingu sem nú hefur haft víðtæk áhrif. Miðflokkurinn mun koma áfram inn í þessa umræðu hér á eftir og vænti ég þess að hún verði málefnaleg.