149. löggjafarþing — 94. fundur,  11. apr. 2019.

samtök um evrópska rannsóknarinnviði (ERIC).

767. mál
[14:50]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Hér verður mælt fyrir frumvarpi til laga um samtök um evrópska rannsóknarinnviði. Frumvarpið er samið í mennta- og menningarmálaráðuneytinu. Tilefni og tilgangur þess er að gera Íslandi kleift með innleiðingu reglugerðar Evrópusambandsins nr. 723/2009 og 1261/2013 að gerast aðili að samtökum um evrópska rannsóknarinnviði. Með innleiðingu reglugerðanna opnast tækifæri fyrir íslenskt vísindasamfélag til að taka þátt í samstarfi um uppbyggingu og rekstur framúrskarandi rannsóknarinnviða sem eru af þeirri stærðargráðu að ógerningur er fyrir einstök ríki að fjármagna slíka innviði sjálfstætt.

Ísland er aðili að vettvangi evrópskrar stefnumótunar um rannsóknarinnviði sem gefur út vegvísi á nokkurra ára fresti með lista yfir rannsóknarinnviði sem samkomulag er um að leggja áherslu á. Íslenskar rannsóknarstofnanir hafa fyrir hönd Íslands verið aðilar að nokkrum rannsóknarinnviðum á þessum forgangslista og hefur það haft í för með sér aukinn styrk íslenskra rannsókna, betra aðgengi að tækjabúnaði og rannsóknargögnum og meiri aðkomu Íslands að þróun rannsóknaráætlana á evrópskum vettvangi.

Virðulegi forseti. Á síðustu árum hefur færst í vöxt að utan um rekstur evrópskra rannsóknarinnviða séu stofnuð samtök. Slík samtök þurfa að uppfylla eftirfarandi viðmið: Í fyrsta lagi þurfa rannsóknarinnviðirnir að vera nauðsynlegir fyrir framkvæmd evrópskra rannsóknaráætlana, í öðru lagi að styrkja evrópska rannsóknar- og nýsköpunarsvæðið og að viðkomandi fræðasvið uppfylli fræðilega og tæknilega alþjóðlega mælikvarða, í þriðja lagi þurfa innviðirnir að vera opnir vísindamönnum frá Evrópusambandinu og tengdum ríkjum, í fjórða lagi að hvetja til hreyfanleika vísindamanna og þekkingar og að lokum að stuðla að miðlun og nýtingu rannsóknarniðurstaðna og tækniframfara.

Fyrirkomulag samtaka um evrópska rannsóknarinnviði þykir henta vel alþjóðasamstarfi af þessu tagi. Aðildarríki gangast undir sameiginlegar reglur og gagnsæi og jafnræði er tryggt. Áskorun sem blasir við íslensku vísindasamfélagi í þessu samhengi er að ýmsir evrópskir rannsóknarinnviðir sem mikilvægar íslenskar stofnanir eru þegar aðilar að, stofnanir á borð við Veðurstofuna, Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands og Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, hafa nýlega tekið upp rekstrarform samtaka um evrópska rannsóknarinnviði. Það er mjög brýnt að þetta frumvarp verði að lögum því að það aðstoðar og styrkir sannarlega þessar stofnanir.

Virðulegi forseti. Eitt af því sem einkennir íslenskt vísindasamfélag er mikil virkni í alþjóðasamstarfi enda er alþjóðlegt samstarf íslenskum rannsóknum afar brýnt. Tryggt aðgengi að hágæðarannsóknarinnviðum í Evrópu eykur ekki einungis gæði íslensks vísindastarfs heldur getur það aukið aðgengi að fjármagni til rannsókna og aukið áhrif Íslands í mótun vísindastefnu Evrópu. Þess má að lokum geta að frumvarpið er í samræmi við áherslur Vísinda- og tækniráðs á árunum 2017–2019 þar sem stefnt er að aukinni þátttöku í alþjóðlegu rannsóknarinnviðasamstarfi.