149. löggjafarþing — 94. fundur,  11. apr. 2019.

Þjóðgarðastofnun og þjóðgarðar.

778. mál
[18:45]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Herra forseti. Við ræðum nýtt lagafrumvarp um Þjóðgarðastofnun og verulegar breytingar á stofnanakerfi í umhverfismálunum. Ég vil stuttlega leggja fram mína sýn á mikilvæg atriði sem mér finnst vera kjarninn í því mikilvæga frumvarpi sem ég styð í grunninn og fagna og lít reyndar á sem fyrsta skref í lengri þróun í umsýslu umhverfismála á Íslandi. Ég ætla að nefna svo sem átta, níu atriði sem mér finnst vera kjarninn í frumvarpinu.

Það er í fyrsta lagi nauðsyn þeirrar samhæfingar sem hæstv. umhverfisráðherra gerði grein fyrir og snýst um gegnsæi og styrkari samfellu í allri stjórnun og skýrari verkferla en núna eru uppi. Við erum öll sammála um að þeir eru býsna flóknir þegar við lítum á þessa þrjá þjóðgarða, sem allir eru ólíkir, og svo á friðlýstu svæðin.

Í öðru lagi er brýnt að ólíkir stjórnunarhættir í þremur þjóðgörðum hverfi að mestu leyti. Eins og kom líka fram hjá hæstv. umhverfisráðherra hefur einn sína stjórn og annar stjórn sem er skipuð mjög uppteknum þingmönnum og síðan er einn undir hatti Umhverfisstofnunar. Það gefur augaleið að stjórnunarhættir á þennan hátt vinna gegn því sem ég nefndi áðan, sem er gegnsæið og samfellan og skýrleiki.

Þá er að sameina í eina stofnun þjóðgarðana og stjórnun þeirra og friðaðra svæða. Það kemur í veg fyrir margan tvíverknaðinn eða þríverknaðinn. Við erum með því einnig ekki bara að einfalda stjórnsýslu á vissan hátt heldur líka að spara og gera hana hagfelldari því markmiði sem þjóðgarðarnir hafa og við þurfum ekki að tíunda hverjir eru.

Við þurfum í fjórða lagi að skilgreina nýja skilvirka ferla. Við getum horft til annarra þjóða um suma þeirra en þegar allt kemur til alls þá skilgreinum við okkar eigin nýju skilvirku ferla í ljósi aðstæðna hér á landi. En ég er sannfærður um að þeir eru til mjög víða annars staðar, annaðhvort alveg eins eða svipaðir. Þeir ferlar eru til þess að auðvelda ákvarðanir og auðvelda það að stunda jafnt framkvæmdir sem umhverfisvernd með virkninni á einni hendi.

Í fimmta lagi líst mér mjög vel á að virkja umdæmisráð í öllum þremur þjóðgörðunum en ekki einungis einum, í Vatnajökli einum nú um stundir, með því að efla þá samstarf ríkis, sveitarfélaga og almennings — og ég endurtek almennings — um þjóðgarða og friðuð svæði á öllu landinu. Það er ekki hægt að mótmæla því að augljós ávinningur er af því. Það er mjög ankannalegt að hugsa sem svo: Jú, það er umdæmisráð í Vatnajökli af því að hann er svo stór en af því að Snæfellsjökulsþjóðgarður er minni þarf hann ekkert umdæmisráð. Auðvitað þarf hann það. Auðvitað eru sveitarfélögin, þótt færri séu, í alveg í sömu stöðu og sveitarfélög í kringum Vatnajökul.

Þá komum við að svolítið erfiðri spurningu eða erfiðu máli, sem eru tengsl þjóðgarðsins á Þingvöllum og Alþingis. Þar er ég formaður og hef svolitla reynslu af starfi í Þingvallanefnd. Ég er ekki mótfallinn því að gera tvennt, þ.e. að halda í mikilvægasta hlutann í tengingu þjóðgarðsins á Þingvöllum við Alþingi, af því að sú hefð er ekki einasta gömul heldur líka sígild og á fullan rétt á sér að mínu mati, en um leið breyta hlutverki Þingvallanefndar með því að taka frá henni ýmis hlutverk í daglegum rekstri, hlutverki í útfærslum og endurbótum í innviðum, útfærslum í hvernig atvinnurekstri er háttað, þá er ég ekki að tala um atvinnustefnu heldur hvort að megi opna sjoppu á þessum stað eða ekki. Ég er ekki að minnast á kaup sumarbústaða í landi þjóðgarðsins o.s.frv., en að halda í samvinnu nefndar og nýrrar stjórnar þjóðgarðsins í mikilvægustu málunum, sem er stefnumótunin og þau nánu samskipti sem þurfa að vera milli Alþingis og stjórnar þjóðgarðsins um það sem varðar aðalsvæði Þingvalla sem er hin svokallaða þinghelgi og nágrenni hennar.

Ég óttast ekki að þau tengsl slitni með þeim umbótum, ég kalla það umbætur, sem í frumvarpinu felast og þeim kaleik sem verður að hluta til tekinn frá Þingvallanefnd, sem þykist góð ef hún nær að hittast aðra hverja viku í einn til einn og hálfan klukkutíma. Það gefur augaleið að með stækkandi umsvifum í þjóðgarðinum er sá kaleikur að verða allt of þungur.

Mig langar líka að nefna almennt að innleiða atvinnustefnu og ekki bara atvinnustefnu í öllum þjóðgörðunum heldur líka rannsóknir á þolmörkum og ákvörðunum um aðgangsstýringu í öllum þjóðgörðunum. Það er þá samhæft milli þeirra allra.

Ég er kominn að sjö lið. Það er sú staðhæfing að þjóðgarðar og náttúruverndarsvæði eru lyklar að sjálfbærri nýtingu auðlinda í landinu öllu. Þeir eru lyklar að farsælli ferðaþjónustu, þeir eru lyklar að varðveislu lífrænnar fjölbreytni og þurfa þess vegna að hafa samhæfða stjórnsýslu, samhæfða stefnumótun og samhæfðan daglegan rekstur. Þetta verða alltaf að vera samvirk atriði svo vel fari.

Í síðasta lagi vitum við að þjóðgörðum, eða einum þjóðgarði, ég veit ekki almennilega hvernig hann verður skipulagður, kannski á nokkrum svæðum, og náttúruverndarsvæðum mun fjölga í landinu. Ég vil þá benda sérstaklega á hafsvæðið í kringum Ísland. Við höfum rætt á Alþingi að það væri mikilvægt að fjölga náttúruverndarsvæðum úti á sjó.

Þrátt fyrir ólíkar skoðanir sem ég hef heyrt viðraðar af þremur hv. þingmönnum tel ég, herra forseti, mjög mikilvægt að við sameinumst þvert á flokka um að ná árangri í þeim málum.

Hv. þm. Vilhjálmur Árnason taldi þetta spennandi verkefni og ég get alveg sagt sem svo að það sé Spennandi með stórum staf.

Ég er viss um að hv. umhverfis- og samgöngunefnd mun vinna vel, ekki aðeins að framgangi heldur líka slípun þessa mikilvæga frumvarps fyrir sitt leyti.