149. löggjafarþing — 94. fundur,  11. apr. 2019.

Þjóðgarðastofnun og þjóðgarðar.

778. mál
[18:54]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég er nokkuð undrandi á áherslunum í ræðu hv. þingmanns og formanns Þingvallanefndar, Ara Trausta Guðmundssonar. Hann kallar eftir því að sá kaleikur sem það er að bera ábyrgð á þjóðgarðinum á Þingvöllum fyrir hönd Alþingis sé frá þingmönnum tekinn, störfum hlöðnum, eins og hann segir. Ég hef nokkra reynslu af því, var fjögur ár formaður þessarar ágætu nefndar. Vissulega var ekki alltaf auðvelt að ná samkomulagi um alla hluti, en það var ekki það erfiðasta að kalla saman fundi vegna þess að menn voru allir yfirleitt hér á svæðinu ef á þurfti að halda.

Ég horfi á það stjórnfyrirkomulag sem hér er kynnt ekki sem einföldun og til að auka skilvirkni heldur sé ég hér eina stofnun með forstjóra, ónefndan fjölda umdæmisráða samkvæmt ákvörðun ráðherra, sérstakar stjórnir á náttúruverndarsvæðum, þar á meðal stjórn yfir Þingvöllum og einnig Þingvallanefnd, stjórn yfir Vatnajökulsþjóðgarði og stjórn yfir Snæfellsnesþjóðgarði og svo væntanlega, ef stofnaðir verða nýir þjóðgarðar, stjórnir yfir þeim. Þetta kalla ég ekki einföldun, hæstv. ráðherra.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann sjái ekki hættur í því að skipta stjórnsýslu Þingvalla upp í tvennt með þeim hætti sem hér er gert ráð fyrir. Ég sé hættu í því fólgna að það geti orðið (Forseti hringir.) átök, bæði um hlutverk, verkaskiptingu og kannski ekki síst fjárveitingar.