149. löggjafarþing — 94. fundur,  11. apr. 2019.

félög til almannaheilla.

785. mál
[19:47]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að kynna okkur þetta frumvarp til 1. umr. Hér er á ferðinni frumvarp sem á ærið erindi við samfélagið og efni þess mun eiga sér anga vítt og breitt um þjóðfélagið allt. Ef það verður að lögum mun það geta haft áhrif á samfélagsgerð framtíðarinnar með ýmsu móti.

Tilurð þessa frumvarps má rekja til vinnu sem hófst undir handleiðslu þáverandi félags- og heilbrigðisráðherra, Guðbjarts heitins Hannessonar, og skýrslu starfshóps sem skilaði af sér verkefni haustið 2010, starfshóps sem skipaður var fólki með víðtæka þekkingu innan og utan ráðuneytis og skilaði af sér ágætri niðurstöðu. Starfinu sem hófst þannig í félags- og tryggingamálaráðuneytinu var síðan haldið áfram í efnahags- og viðskiptaráðuneytinu og síðar í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu.

Frumvarp til laga um félagasamtök til almannaheilla var lagt fyrir Alþingi á 145. löggjafarþingi, 2015–2016, af þáverandi iðnaðar- og viðskiptaráðherra. Ekki tókst þó að ljúka afgreiðslu frumvarpsins á því þingi en það fór í umsagnarferli og hlaut ágætar undirtektir. Þetta frumvarp hefur því átt sér langan aðdraganda og hafa regnhlífarsamtök almannaheillasamtaka, Almannaheill – samtök þriðja geirans, því að vissulega er þetta þriðji geirinn svokallaði, beitt sér af einurð fyrir málinu allt frá árinu 2008. Eftir áskorun frá samtökunum skipaði velferðarráðherra eða heilbrigðisráðherra þáverandi, sem fór með málefni félagasamtaka á þeim tíma, nefnd til að skoða nauðsyn þess að setja lög. Það var hlutverk þessa starfshóps.

Þetta frumvarp hefur nú gengið í endurnýjun lífdaga með nokkrum breytingum til einföldunar, eins og segir í greinargerð með frumvarpinu, og heitir nú frumvarp til laga um félög til almannaheilla. Lög nr. 33/1990, um sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur, eru ekki um sinn hluti af þessu frumvarpi, ekki heldur lög um sjóði og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá, nr. 19/1988, a.m.k. ekki fyrst um sinn. Þá varð það niðurstaða nefndarinnar sem vann þetta frumvarp að skattumhverfi félagasamtaka til almannaheilla ætti að ráðast af skattalögum eins og annarra félagaforma, sjálfseignarstofnana og sjóða. Um það er fjallað í greinargerð að hugsanlega sé ástæða til að huga í framhaldinu að samningu nýrra skattalagaákvæða varðandi skatt af aðföngum, arfi og gjafafé. Að þessu leyti gengur lagafrumvarpið skammt en er ugglaust til mikilla bóta og styrkir þetta rekstrarform eða félagaform í sessi.

Ef frumvarpið verður samþykkt munu lögin gilda um félög sem skráð eru í almannaheillafélagaskrá ríkisskattstjóra og sem stofnað er til eða starfrækt eru í þeim tilgangi að efla afmörkuð málefni til almannaheilla samkvæmt skilgreindum og formlegum samþykktum, eins og hæstv. ráðherra kom inn á í sinni framsögu. Þessi lög gilda ekki um félög sem komið er á fót í ágóðaskyni fyrir félagsmenn.

Virðulegur forseti. Almannaheillasamtök í landinu hafa lengi óskað eftir því að settur verði vel skilgreindur lagarammi utan um starfsemina og telja hann mikilvægan til að efla traust á starfsemi almannaheillasamtaka í landinu og stuðla að góðum starfsháttum innan slíkra samtaka. Skilgreina þurfi betur eftirlit og gagnsæi í starfi þeirra. Í raun óska þessi félagasamtök, sem mörg gegna mikilvægu hlutverki í samfélaginu, eftir traustu lagaumhverfi til að starfa eftir, líkt og t.d. sjálfseignarstofnanir og einkahlutafélög hafa nú þegar.

En hvað erum við að ræða um þegar við tölum um almannaheillasamtök? Hvaða fyrirbæri er þetta í samfélaginu í þeim skilningi sem við fjöllum um það? Við eigum þau fjölmörg og þau gegna veigamiklu hlutverki í samfélagsþjónustu og hafa gert í áratugi, lengur en lýðveldissöguna. Án þeirra getum við ekki verið og án þeirra eigum við ekki að vera. Við værum snöggtum fátækari ef þeirra nyti ekki við. Ég nefni dæmi um almannaheillasamtök sem eru SÍBS, það er hægt að nefna Rauða kross Íslands og Landsbjörg. Allt eru þetta almannaheillasamtök sem myndu að öllum líkindum, og samkvæmt skilningi þess sem hér stendur, falla undir þessi lög um félög til almannaheilla.

Almannaheillasamtökum er eðli málsins samkvæmt, í öllu sínu starfi, nauðsynlegt að efla traust meðal almennings á starfsemi sinni. Hinu opinbera sem oft gerir samninga við almannaheillasamtök um ýmis verkefni — nefna má samfélagslega þjónustu af ýmsu tagi, öldrunarþjónustu og fleiri þætti — ætti því að vera hagur að því að rekstrarform hjá slíkum samstarfsaðilum sé traust og að ljóst liggi fyrir hverjar skyldur þeirra og hlutverk eru. Sérhvert áfall eða misferli sem á sér stað innan slíkra samtaka, óljósir þættir, ógreinileg mörk og e.t.v. ógreinileg skil á opinberum gögnum, eins og reglulega verður kannski að fréttaefni í fjölmiðlum, lendir að hluta til á öðrum almannaheillasamtökum og reyndar líka oft á opinberum aðilum á meðan lagaramminn utan um þennan rekstur er ekki vel skilgreindur. Skýr lagarammi er markmiðið með þessu lagafrumvarpi sem hæstv. ráðherra hefur nú mælt fyrir.

Tilgangurinn er annars vegar að gera rekstrarumhverfi almannaheillasamtaka á Íslandi eins og best þekkist í löndunum í kringum okkur, bæði að því er varðar skattheimtu af starfi almannaheillasamtaka og skattfrádrátt til handa fyrirtækjum og einstaklingum sem styðja við starf þeirra. Hins vegar er tilgangur laganna líka að skapa meiri tiltrú á almannaheillasamtökum og efla störf þeirra. Það er enginn efi á því að við þurfum á því að halda í náinni framtíð að setja í farveg öfluga virkni almannaheillasamtaka. Það er ekki fyrirsjáanlegt að hið opinbera geti annast og tekið á sig allar þær skyldur og öll þau verkefni sem við þurfum sameiginlega að takast á við.

Með því að setja skilyrði í lög fyrir því að slík félög geti notið ýmissa réttinda og borið skyldur er leitast við að tryggja almenningi að félög og félagasamtök sem njóta stuðnings eða fyrirgreiðslu séu traustsins verð. Slík lög yrðu því til mikilla bóta fyrir þriðja geirann og samfélagið.

Eins og tæpt hefur verið á á hið opinbera í samstarfi við almannaheillasamtök í nokkrum mæli. Mér dettur í hug að nefna eitt dæmi um fyrirmyndarsamstarf hins opinbera við almannaheillasamtök og það er samstarf við Rauða kross Íslands á sviði sjúkraflutninga með sjúkrabifreiðum. Nú bregður svo við að þetta samstarf hefur verið við lýði með ágætum í nærri heila öld, gott samstarf sem hafið var fyrir atbeina áhugafólks vítt og breitt um landið, hefur þróast í takt við tíðarandann og gengið vel. Rauði kross Íslands er almannaheillafélag sem starfrækt er án hagnaðarsjónarmiða. Það getur ekki starfrækt sjúkrabíla án þess að hafa af því einhverjar tekjur til að mæta kostnaði en nú bregður svo við að ráðuneytið hefur kosið að ljúka þessu samstarfi og leggja upp í leiðangur og einhverja ferð án fyrirheits. Óskýr svör fást um það hver ástæðan sé. Það er ekki kostnaður, það eru ekki fagleg atriði, það eru einhver önnur atriði. Menn óttast auðvitað að það muni leiða af sér mikinn aukinn kostnað ef þessi þjónusta hafnar hjá opinberum aðilum eða einkaaðilum þess vegna. Spurningunni er enn ósvarað: Hvernig verður fyrirkomulagið? Þetta er eitt lítið dæmi um mjög farsælt samstarf almannaheillasamtaka við hið opinbera. Þarna sjáum við í mínum ágæta flokki, Samfylkingunni, fyrir okkur myndir þar sem almannaheillasamtök koma til móts við samfélagið, takast á við verkefni öllum til góða, ekki til þess að hafa af því mikið fé.

Virðulegur forseti. Með þessu frumvarpi er auðvitað ekki stefnt að því að setja reglur um öll frjáls félög, eins og hæstv. ráðherra tæpti á, heldur einungis hin skilgreindu almannaheillasamtök líkt og gert hefur verið í Finnlandi. Finnland hefur verið helsta fyrirmynd okkar að þessu leyti og það er vel, en að öðru leyti eigum við að sníða þetta að þeim aðstæðum sem ríkja á Íslandi og sýna þar frjálslyndi og framsýni. Eins og ég hef tæpt á er hlutverk þriðja geirans vaxandi og við verðum að taka afstöðu til þess hvaða verkefni hið opinbera ætlar að annast um sjálft og hvaða verkefni getum við afhent almannaheillasamtökum, sem dæmi Rauða krossi Íslands eins og ég nefndi.