149. löggjafarþing — 95. fundur,  29. apr. 2019.

staða Landsréttar.

[15:10]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Ég vil spyrja hæstv. forsætisráðherra að því sem verkstjóra ríkisstjórnarinnar hvaða tímaramma forsætisráðherra hafi gefið til að bregðast við dómi Mannréttindadómstóls Evrópu varðandi skipun í Landsrétt. Núna eru hátt í tveir mánuðir síðan niðurstaða lá fyrir alveg skýr. Við getum rætt um hvort áfrýja eigi eða ekki. Það er búið að taka þá ákvörðun. Það var ástæða fyrir því að hafa dómara ekki 11 heldur 15 einfaldlega út af því að málafjöldinn er það mikill, en ekki síður að Landsréttur er ein mikilvægasta réttarbót sem við höfum gert á umliðnum árum og áratugum. Það þarf að halda vel utan um Landsrétt, einkum á fyrstu stigum þegar við höfum ekki síst réttaröryggi í huga.

Það liggur á að skýr mynd komi af því hvernig við ætlum að haga skipun Landsréttar til skemmri tíma litið og ekki síður til lengri tíma. Við vitum það auðvitað að plan A lá fyrir. Ríkisstjórnin ætlaði alltaf að vinna málið. Plan B var ekki til staðar. Það hafa ráðherrar og þingmenn stjórnarflokkanna þegar staðfest. Menn bjuggust ekki við þessari niðurstöðu.

Þess vegna vil ég spyrja hæstv. ráðherra að því hvort þetta mál sé ekki í forgangi hjá ríkisstjórninni, að klára það og koma skikk á það hvernig við högum skipan í Landsrétt. Það er gríðarlega mikilvægt, ekki síst með það í huga hvaða hagsmunir eru undir.

Fólk, bæði á suðvesturhorninu og á landsbyggðinni, á mjög mikið undir því að réttarkerfið fúnkeri, að málafjöldinn fari í gegnum kerfið og að það fái úrlausn sinna mála. Þá þurfa svörin frá hæstv. ríkisstjórn að vera skýr. Halda þarf vel utan um Landsrétt, þennan ramma, þetta mikilvæga réttaröryggistæki eða þann öryggisventil sem Landsréttur er fyrir íslenskt dómskerfi. Þess vegna er brýnt að ríkisstjórnin og forsætisráðherra gefi þinginu en ekki síður þjóðinni skýr skilaboð og svör um það hvernig Landsréttarmálið á allt að fúnkera.