149. löggjafarþing — 95. fundur,  29. apr. 2019.

áhrif kjarasamninga á tekjur öryrkja og eldri borgara.

[15:23]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég tel mig hafa svarað spurningu hv. þingmanns þegar ég fór yfir það áðan að þessar hækkanir eru ákvarðaðar í fjárlögum hvers árs. Fjárlög næsta árs eru að sjálfsögðu ekki komin fram þannig að það bíður í raun og veru þeirra að sjá hvaða viðmið verða nýtt við þessar hækkanir, eins og verið hefur. Hv. þingmaður gagnrýnir það fyrirkomulag. En á sama tíma — og það er bara það sem ég benti á í mínu fyrra svari — erum með eyrnamerkta fjármuni í fjárlögum þessa árs sem er ekki verið að nýta í kjarabætur, sem væri hægt að nýta og er mikilvægt að fara að nýta.

Þess vegna vil ég ítreka það sem ég hef margoft ítrekað hér, að ég tel mjög mikilvægt að sá hópur sem hefur verið að störfum skili þeim tillögum sem þar eru undir, þó að það sé ekki full sátt um þær, þannig að þingmenn hafi hér a.m.k. efni til að ræða og geti farið að taka afstöðu til þeirra ólíku leiða sem þar hljóta að vera á borðinu, hjá umræddum hópi.