149. löggjafarþing — 95. fundur,  29. apr. 2019.

loftslagsbreytingar og orkuskipti.

[15:34]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þessa hundleiðinlegu fyrirspurn sem hér er beint að mér. Hún er kannski ekki svo leiðinleg ef betur er að gáð. Ég tek undir þau orð hv. þingmanns að við stöndum frammi fyrir mjög stórri áskorun. Loftslagsbreytingar eru stærsta áskorun 21. aldarinnar að mínu mati.

Hér er spurt hvort við getum tekist á við þetta mikilvæga, stóra verkefni án þess að það hafi áhrif á auðlindir okkar. Ég held að stutta svarið við því sé að auðvitað hafa allar breytingar sem við þurfum að vinna að einhver áhrif á auðlindanýtingu. Þau áhrif eru ekki endilega neikvæð. Kannski eru sum þeirra neikvæð, önnur jákvæð. Þegar litið er til þess sem hv. þingmaður spurði sérstaklega um eða ræddi sérstaklega í sinni fyrirspurn, orkuskiptin, þá er í núverandi nýtingarflokki rammaáætlunar næg orka til að sjá fyrir þessum orkuskiptum sem munu gerast á lengri tíma en einum eða tveimur árum. Það hefur m.a. verið bent á varðandi þá aukningu sem er að verða núna á fjölda rafbíla, svo dæmi sé tekið, að ekki sé búist við að virkja þurfi sérstaklega fyrir það. En við þurfum að huga að því að þeirri orku sem við erum tilbúin til að ráðast í virkjanir fyrir sé beint í verkefni eins og þau sem snúa að loftslagsvænum verkefnum í framtíðinni.