149. löggjafarþing — 95. fundur,  29. apr. 2019.

refsiaðgerðir vegna bílaleigunnar Procar.

[15:39]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina og þakka fyrir tækifærið að fá að ræða þetta mál í stuttu máli. Fyrirsögn fréttarinnar var breytt, enda var samhengi hlutanna að það væri staðreynd að almennt væri íþyngjandi fyrir hvers konar fyrirtæki á hvaða sviði sem er að missa starfsleyfi sitt. Það er bara staðreynd, óháð því hvað hefur gengið á þar á undan. Það voru sem sagt ekki mín skilaboð að það væri sérstaklega íþyngjandi fyrir þetta fyrirtæki vegna þeirra brota sem það hafði framið að það væri svipt starfsleyfi.

Sú háttsemi getur auðvitað haft ýmsar afleiðingar fyrir fyrirtæki, bæði allsherjarréttarlegar og einkaréttarlegar fyrir neytendur til að leita réttar síns. Þetta mál er, eins og komið hefur fram í fjölmiðlum og lögreglan hefur sjálf staðfest, á borði lögreglu sem bendir til þess að málið sé alvarlegt. En það er líka á borði Samgöngustofu, sem er stofnun sem heyrir ekki undir mig, en það er þar á grundvelli laga um leigu skráningarskyldra ökutækja sem er löggjöf sem heyrir undir mitt ráðuneyti. Þar er málið enn í ferli, að því er ég best veit.

Það sem ég var að reyna að koma á framfæri og er mín skoðun er að þegar við ræðum eftirlit hins opinbera með fyrirtækjum í þessu landi þarf að passa að það sé ekki alltaf svarið við öllu sem úrskeiðis fer vegna þess að eftirlit á Íslandi er mjög dýrt. Það er dýrast allra landa innan OECD. Við fórum af stað með það verkefni með OECD að greina regluverkið hér vegna þess að það kostar fyrirtækin, neytendur og skattgreiðendur að hafa eftirlitið ef það er óskilvirkt, of kostnaðarsamt eða óþarflega umfangsmikið.

Þess vegna þurfum við að huga að því hvort refsiábyrgð lögaðila sé einfaldlega nægilega skýr í því regluverki sem við höfum í dag. Þess vegna (Forseti hringir.) getur ekki svarið alltaf verið að það þurfi að auka eftirlitið á alla þegar einhver brýtur af sér.