149. löggjafarþing — 95. fundur,  29. apr. 2019.

svör við fyrirspurnum.

[15:45]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Nú eru aðeins um fimm vikur eftir af þessu þingi. Mig langar þess vegna að vekja máls á því enn einu sinni að ég bíð enn svars við tveimur fyrirspurnum sem ég hef lagt fram. Önnur þeirra, um sölu fullnustueigna Íbúðalánasjóðs, hefur fengið heldur hlykkjóttan feril í gegnum þingið en liggur nú hjá hæstv. dómsmálaráðherra. Hin er til fjármálaráðherra og er búin að vera þar í nokkra mánuði og varðar undanskot frá skatti.

Í þeim bunka sem lesinn var hér upp áðan þar sem ráðherrar báðu um frest til að svara er ekki að finna beiðni um frest til að svara þessum tveimur fyrirspurnum. Nú langar mig til að biðja forseta enn einu sinni um að tryggja að svar berist við þessum tveimur fyrirspurnum þannig að þær brenni ekki inni aftur vegna þess að þingi sé að ljúka. Ég bið hæstv. forseta um liðsinni í þessu máli þannig að tryggt verði að þeim verði báðum svarað áður en þingi lýkur í vor.