149. löggjafarþing — 95. fundur,  29. apr. 2019.

ferðakostnaður sjúkratryggðra og aðgengi fólks utan höfuðborgarsvæðisins að sérfræðiþjónustu.

641. mál
[15:47]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V):

Virðulegi forseti. Ég spyr hvort hæstv. heilbrigðisráðherra hafi áform um að breyta reglum um ferðakostnað sjúkratryggðra og greiða fyrir aðgengi fólks utan höfuðborgarsvæðisins að sérfræðiþjónustu þar sem Tryggingastofnun ríkisins tekur aðeins þátt í kostnaði við tvær ferðir sjúklings á 12 mánaða tímabili. Síðan spyr ég einnig að því hvort undanþágur hafi verið veittar frá þeirri reglu.

Við vitum að á landsbyggðinni er ekkert endilega algengt að ákveðin grunnheilbrigðisþjónusta sé til staðar, hvort sem um er að ræða augnlækna, krabbameinslækna eða aðra. Þetta er náttúrlega misjafnt eftir stöðum en það er ekki almenn regla. Oftar en ekki hafa sjúklingar þurft að fara reglulega hingað suður á Stór-Hafnarfjarðarsvæðið, höfuðborgarsvæðið, til að sækja þessa þjónustu. Fyrir veikan einstakling, komandi af landsbyggðinni, getur slíkur kostnaður verið verulegur og haft nokkuð mikil áhrif.

Ég trúi ekki öðru en að menn átti sig á því að það er voðalega erfitt að setja alla í sömu hólfin. Það er ekki þannig að ein stærð henti öllum þegar kemur að því að afgreiða sjúklinga og hvaða meðferð þeir þurfa á að halda. Á einu ári getur sjúklingur þurft að leita til höfuðborgarsvæðisins vegna geðlæknisþjónustu eða sérfræðiþjónustu einhverri, síðan þarf hann allt aðra þjónustu síðar á árinu. Það eru ýmsar ástæður fyrir því að sjúklingar þurfa að leita hingað. Þess vegna finnst mér mikilvægt að kerfið hafi einmitt í huga að ein stærð henti ekki endilega öllum og ekki síður hitt að við verðum að hafa hagsmuni sjúklinganna í huga, ekki hvernig við byggjum upp kerfið sem slíkt. Auðvitað þarf að hafa reglu á þessu öllu saman en við hljótum að hafa ákveðnar hugmyndir um að kerfið sé þannig uppbyggt. Við erum að byggja upp meginsérfræðiþjónustuna, þjóðarsjúkrahúsið m.a., á höfuðborgarsvæðinu og þá hljótum við að hafa í huga þarfir einstaklinganna, en ekki byggja kerfið upp þannig að það skipti máli hvert póstnúmerið er hverju sinni. Það á ekki að ráða för, heldur þarfir sjúklinganna.

Til viðbótar þessari fyrirspurn myndi ég gjarnan vilja fá sjónarmið og svör hæstv. ráðherra um það hvort ráðherra ætli að taka á þessu í heilbrigðisáætluninni sem verður væntanlega kynnt í haust. Er ekki í ljósi reynslunnar ástæða til að endurskoða nákvæmlega þessa þætti? Sjúklingar eru ekkert að leika sér að því að koma hingað til höfuðborgarinnar. Við vitum það, nýbúin að heyra í fréttum til að mynda af konu sem er í krabbameinsmeðferð, þarf á aðstoðarfólki að halda, taka fjölskylduna með. Hún þarf sjálf að fara nokkrar ferðir, ekki bara eina eða tvær heldur fleiri ferðir. Auðvitað þarf kerfið að líta (Forseti hringir.) sérstaklega til svona þátta og aðstæðna.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra til viðbótar hvort við munum sjá á þessu tekið innan heilbrigðisáætlunar sem verður rædd síðar á þessu ári.