149. löggjafarþing — 95. fundur,  29. apr. 2019.

ferðakostnaður sjúkratryggðra og aðgengi fólks utan höfuðborgarsvæðisins að sérfræðiþjónustu.

641. mál
[15:56]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil bara taka undir mikilvægi þess að við ræðum ferðakostnað sjúkratryggðra og aðgengi fólks utan höfuðborgarsvæðisins að sérfræðiþjónustu. Þar rifjaðist upp m.a. fyrir mér fyrirspurn sem ég lagði fram og fékk svar við á árinu 2016 þar sem fram kom að skráningu upplýsinga Sjúkratrygginga um endurgreiddan ferðakostnað innan lands væri mjög ábótavant. Erfitt var að lesa úr þeim t.d. hversu margar flugferðir væri verið að greiða fyrir, hversu dýrar þær væru hjá einstaklingunum og hvað væri greitt fyrir flug, hvað væri greitt fyrir eigin akstur eða aðrar almenningssamgöngur. Ég vil hvetja hæstv. ráðherra til að skoða hvort bætt hefur verið úr því.

Ég vil taka undir að þetta er auðvitað mikið lífskjaramál. Ég þekki dæmi um að fjölskyldur hafi borgað meira í ferðakostnað en fyrir tannréttingar barna, sem er nú æðimikið, bara tannréttingarnar sem slíkar.

En eins finnst mér mjög jákvætt margt sem unnið er að, eins og samningar við sérgreinalækna sem innifela þetta.