149. löggjafarþing — 95. fundur,  29. apr. 2019.

ferðakostnaður sjúkratryggðra og aðgengi fólks utan höfuðborgarsvæðisins að sérfræðiþjónustu.

641. mál
[15:57]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur fyrir að standa fyrir þessari fyrirspurn og vil grípa boltann þar sem fæðandi konur eru annars vegar því að þær eiga í sérstökum vanda víða því að fæðingarstöðum fækkar. Nú er svo komið að það er líklega á þremur stöðum á landinu hægt að framkvæma keisaraaðgerðir með tryggum hætti.

Þetta á líka við um mæðravernd, mæðraeftirlit og skoðanir. Konur sem búa fjarri höfuðstaðnum, fjarri stærri þéttbýliskjörnunum — þessar fjölskyldur verða oft fyrir miklum útgjöldum.

Ég spyr því hæstv. ráðherra hvort einhverjar áætlanir séu um að koma til móts við þessar fjölskyldur. Það er ekki bara konan, það er svo sem líka maki og börnin sem vilja taka þátt í þeim merkilega viðburði þegar nýr einstaklingur kemur í heiminn. Þessum fæðingarstöðum fækkar, því miður, og við þurfum að gera allt til að örva barneignir á Íslandi, ekki satt?