149. löggjafarþing — 95. fundur,  29. apr. 2019.

ferðakostnaður sjúkratryggðra og aðgengi fólks utan höfuðborgarsvæðisins að sérfræðiþjónustu.

641. mál
[15:59]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Það er eiginlega óskiljanlegt af þeir sem búa á höfuðborgarsvæðinu skuli geta fengið þessa þjónustu án nokkurs gjalds, liggur við. En þeir sem eru austast eða vestast, lengst frá sjúkrahúsinu, þurfi liggur við að verða gjaldþrota, t.d. í krabbameinsmeðferð. Þetta er kostnaður upp á hundruð þúsunda. Það er óskiljanlegt vegna þess að við erum með vörur, bensín og alls konar vörur, á sama verði um allt land en svo ef fólk veikist lendir það í fjárhagslegum ógöngum og því lengra frá höfuðborginni sem það býr, þeim mun meiri er kostnaðurinn. Það er búið að þrengja að sjúkrahúsum úti á landi, bæði heilsugæslum og öðru. Þess vegna hlýtur að vera grundvallaratriði að sjá til þess að allir landsmenn beri sama kostnað við að sækja sér heilbrigðisþjónustu.