149. löggjafarþing — 95. fundur,  29. apr. 2019.

kolefnishlutleysi við hagnýtingu sameiginlegra auðlinda og eigna ríkisins.

609. mál
[16:17]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil taka það aftur fram að mér finnst hv. þingmaður setja mikilvægt mál hér á dagskrá. Þetta er ein leið til að nálgast það hvernig við sækjum fram í átt að því yfirmarkmiði sem við höfum ákveðið fyrir okkur sem samfélag, fyrir okkur sem þjóð. Það leiðir hins vegar af ólíkri starfsemi að sum atvinnustarfsemi er með mest lítið kolefnisfótspor meðan önnur eru með mikið og það gæti orðið gríðarlega íþyngjandi að fara fram á fullt kolefnishlutleysi hverrar einingar fyrir sig enda erum við ekki í sjálfu sér að sækjast eftir því heldur hafa markmið okkar frekar horft til heildarútblásturs, heildarlosunarinnar. Það væri auðvitað eftirsóknarvert í sjálfu sér að það væri engin losun yfir höfuð miðað við það hver staðan er í dag.

Ég held hins vegar að það hafi vegna þessarar umræðu nú þegar komið fram að við Íslendingar höfum gríðarlega margt fram að færa. Þannig eru Íslendingar t.d. að selja þekkingu sína á sviði jarðvarma í Kína. Íslendingar eru að kynna fiskveiðistjórnarstefnu sína víða um heim sem fyrirmyndarfiskveiðistjórnarkerfi sem hámarkar afrakstur. Við erum að fjárfesta í nýjustu tækni. Hér eru verkefni sem tengjast kolefnisbindingu sem feikileg tækifæri geta verið samfara og loks eru stundaðar rannsóknir á Ísland sem eru beintengdar kolefnislosun og fela í sér möguleika til framtíðar sem gætu jafnvel (Forseti hringir.) velt stórum steinum til breytinga.