149. löggjafarþing — 96. fundur,  29. apr. 2019.

skráning einstaklinga.

772. mál
[16:58]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Það er kannski ekki svo að ég ætli að lengja umræðuna mikið, en mér finnst samt ástæða til að koma upp undir þessu máli. Ég fagna því að það sé komið fram fyrst og fremst vegna þess að ég treysti því að það taki á ákveðnu atriði, sem ég hef ítrekað bent á hér í ræðustól og rætt í viðtölum, það er það sem ég hygg að sé kallað vensl einstaklinga. Ég er sérstaklega að vísa í foreldraskylduna og það að foreldrar sem fara með forsjá barna sinna séu ekki skráð með fullkomnum hætti í þjóðskrá — eða að stofnunin hefur alla vega ekki talið sig geta miðlað þeim upplýsingum til annarra opinberra stofnana.

Mig langar að vísa hér í spurningar sem ég lagði fyrir heilbrigðisráðherra og svör við þeim varðandi Sjúkratryggingar Íslands. Þetta er á þskj. 819, mál nr. 455, þar sem ég spurði ráðherra út í það annars vegar hvaða upplýsingar Sjúkratryggingar nota, og þeir notast að sjálfsögðu við þjóðskrá, og hverjar verklagsreglurnar væru þegar bréf varðandi börn eru send út. Þá spurði ég: Eru þau stíluð á báða forráðamenn eða annan eða er miðað við lögheimili barns?

Með leyfi forseta, þá er svarið þetta:

„Samkvæmt upplýsingum frá Sjúkratryggingum Íslands eru bréf almennt stíluð á þann aðila sem stýrir fjölskyldunúmeri barns en það er elsti einstaklingur í fjölskyldu samkvæmt skráningu Þjóðskrár. Það getur því verið forsjárlaus maki forsjáraðila barnsins ef hann er eldri en forsjáraðilinn sem barn býr hjá. Þó benda Sjúkratryggingar Íslands á að í sumum kerfum þeirra sé mögulegt að handskrá sérstaklega tilgreindan forsjáraðila.“

Ég spurði líka hvort ráðherra teldi þetta samræmast persónuverndarlögum, þ.e. þegar Sjúkratryggingar stíla bréf er varða málefni barna á annan en forráðamann. Skemmst er frá því að segja að ráðherra er sammála í því að það uppfylli ekki persónuverndarlögin, sé í raun brot á persónuverndarlögum enda hefur Persónuvernd bent á að þessi meðferð sé ekki í lagi og ráðuneytið ítrekar athugasemdirnar við Sjúkratryggingar Íslands.

Ég vil leggja mikla áherslu á að þessu verður að breyta. Þegar maður fer að grafa sig ofan í það sér maður að það er heil síða á heimasíðu Þjóðskrár Íslands sem útskýrir þetta með fjölskyldunúmer. Það er eldgamalt kerfi sem var fundið upp árið 1986 og var þá ekki hugsað til þess að geta rakið það hver fer með forsjá barns. Ég hef einhvern skilning á því. Þegar maður les í gegnum heimasíðuna sér maður algengar spurningar sem Þjóðskrá fær: Af hverju er ég ekki skráð sem foreldri barns míns í þjóðskrá? Af hverju sjá opinberar stofnanir, t.d. bankar, ekki að ég fari með forsjá barnsins míns? Af hverju fær stjúpforeldri markpóst og tilkynningar um barn mitt en ekki ég sem er foreldri og fer með forsjá barnsins?

Það að Þjóðskrá Íslands skuli þurfa að hafa þessar spurningar og svör inni á heimasíðunni segir auðvitað heilmikið. Það segir okkur að við erum ekki að ástunda það sem lögin segja okkur að gera. Samkvæmt barnalögum og foreldraskyldunni er þeim foreldrum sem fara með forsjá barna sinna skylt að veita börnunum ákveðna þjónustu og þeir fara með ákveðna ábyrgð. Þegar þetta hefur verið framkvæmt með þeim hætti eins og staðan er í dag gefur það foreldrum einfaldlega ekki tækifæri til að uppfylla foreldraskyldu sína. Ég tel mjög brýnt að úr þessu verði bætt hið allra fyrsta.

Mér fannst athyglisvert að sjá það hér í greinargerð með frumvarpinu að Alþingi hefði ályktað að fela ríkisstjórninni að sjá til þess að í almannaskráningum á Íslandi yrðu skráðar nauðsynlegar upplýsingar um umgengnisforeldra til jafns á við aðra foreldra svo fljótt sem auðið væri og eigi síðar en 1. janúar 2016. Ég ítreka að ég er í mínu tilfelli ekki að tala um umgengnisforeldra þó að ég telji það mikilvægt, ég er að tala um forsjárforeldra. Ég er að tala um foreldra sem fara með forsjá barnanna, að börnin séu skráð undir þeirra nafn í þjóðskrá.

Ég verð að viðurkenna að ég hef ekki alveg skilning á því hvernig kerfið okkar hefur ekki getað fylgt eftir þessari sjálfsögðu samfélagsbreytingu og þeim lögum sem við höfum þegar sett í barnalögum og í svo mörgum lögum, að það sé svona ofboðslega erfitt að skrá þetta með þessum hætti, sem er reyndar, samkvæmt mínum upplýsingum, gert að einhverju magni, en þeir hafa ekki treyst sér til að miðla því áfram til annarra opinberra stofnana. Þá verður úr, eins og fram kom t.d. í svari mínu varðandi Sjúkratryggingar, að það er hreinlega ekki verið að fylgja lögum fullkomlega í þessum efnum. Það sama á við um fjölmörg önnur vandamál sem foreldrar í þessari stöðu lenda í. Það á t.d. við varðandi tryggingafélög, banka og á fleiri stöðum.

Ég vona innilega að þetta frumvarp sé til þess fallið að bæta úr þessu. Þá kemur að umræðu um kostnaðinn sem aðeins var farið í hér í andsvari áður. Auðvitað er nauðsynlegt að fjármagna þær nauðsynlegu breytingar sem kann að þurfa að gera á kerfi Þjóðskrár. Við höfum heyrt það í umræðum í mörgum málum að tölvukerfi Þjóðskrár sé úr sér gengið og úr því þurfi að bæta. Þá vil ég jafnframt brýna hæstv. ráðherra í því að yfirfara þann kostnað. Er nauðsynlegt að þær framkvæmdir, sú vinna, eigi sér stað innan stofnunarinnar? Eða er þetta aðkeypt þjónusta? Erum við örugglega að fara bestu og hagkvæmustu leiðina í því? En eins og ég segi enn og aftur: Það þarf að breyta þessu.