149. löggjafarþing — 97. fundur,  30. apr. 2019.

störf þingsins.

[13:31]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Akkillesarhæll mannkyns er vangeta þess til að gera greinarmun á sönnu og ósönnu. Þetta hljómar kannski furðulega með hliðsjón af nútímasamfélagi og nútímatækni. En það er reyndar einmitt vísindaleg aðferð sem sannar punktinn best. Hún verðskuldar marga langa pistla og ég get ekki lýst henni af neinni sanngirni í einni þingræðu en í stuttu máli gengur hún út á að efast, spyrja spurninga og horfast í augu við mælingar sem allir geta gert. Að trúa ekki eigin sannfæringu heldur því sem aðrir, jafnvel óvinir manns, geta einnig mælt með sama hætti og fengið sömu niðurstöðu.

Í daglegu tali eru þessar niðurstöður kallaðar staðreyndir, orð sem vitaskuld er hægt að misnota eins og önnur. Vísindaleg aðferð er mjög langt frá því að vera sjálfsögð. Næstum því allt mannkyn hefur næstum því alltaf verið án hennar og í allan þann tíma er bjargföst trú okkar á tær ósannindi ekki bara eitthvert slys sem gerist af og til þegar einn gleymir að hugsa eða annar gleymir að lesa heldur einkennist mannlegt samfélag beinlínis af bjargfastri trú á hluti sem eru ekki sannir.

Ástæðan er sú að sannleiksleitin er ekki meðfæddur eiginleiki eins og að ganga uppréttur. Við erum mjög góð í því að skilja hluti en við erum ekki svo góð í að gera greinarmun á því hvort það sem við skiljum svo vel sé rétt eða rangt, satt eða ósatt. En fréttirnar flyt ég verri. Það er nefnilega ekki heimska okkar sem veldur því að við trúum ósannindum heldur miklu frekar sálfræðileg einkenni okkar sem eru að mestu leyti afleiðing margra milljóna ára þróunarsögu þar sem afkoma okkar einfaldlega snerist ekki um að greina sannindi frá ósannindum heldur að lifa rétt svo nógu lengi til að eignast afkvæmi til að endurtaka leikinn.

Hver er punkturinn? Hann er sá að sannleikurinn er hvorki aðgengilegur, einfaldur né augljós og það gildir um pólitík eins og allt annað í mannlegu samfélagi. Eina leiðin til að við getum látið okkur dreyma um að trúa því rétta og ekki því ranga er með því að bera virðingu fyrir þessum vanmætti okkar. Það er ekki nóg að efast um skoðanir annarra heldur þurfum við líka að efast um okkar eigin skoðanir, sérstaklega þær sem vekja sterkar tilfinningar. Enginn ætti að óttast efann því hann veikir einungis það sem hefur veika undirstöðu en styrkir það sem stendur eftir. Þannig virka ekki einungis góð vísindi heldur einnig góð stjórnmál.