149. löggjafarþing — 97. fundur,  30. apr. 2019.

störf þingsins.

[13:33]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg):

Virðulegur forseti. Mig langar að ræða þá miklu fyrirmynd sem Greta Thunberg er. Greta vaknaði og fékk heila kynslóð með sér í loftslagsverkfall. Þau fylla stræti og torg um allan heim hvern föstudag og mótmæla aðgerðaleysi í loftslagsmálum. Unga fólkið er vaknað, heimurinn er að vakna og við sem hér sitjum þurfum líka að vakna.

Við eigum fjöldann allan af aðgerðaáætlunum. Þeim þarf að tryggja fjármagn og þær þarf að gera betri og metnaðarfyllri á hverjum degi. En dugar það til? Kannski er vandinn orðinn það knýjandi að lýsa þurfi yfir neyðarástandi í loftslagsmálum. En áður en til þess kemur getum við líka litið í kringum okkur hér á þingi og fundið breytingar sem má hrinda í framkvæmd því sem næst strax.

Ég nefni fjögur dæmi. Hvað með að láta þjóðarsjóð sniðganga fjárfestingar í mengandi iðnaði fortíðar, gera hann að grænum fjárfestingarsjóði framtíðar? Hvernig væri að klára frumvarp mitt um að leggja til hliðar allar hugmyndir um olíuvinnslu á vegum Íslands? Þannig sýnum við svo ekki verði um villst að sá iðnaður sé arfur fortíðar. Hvernig væri svo að neita að taka við tillögu um samgönguáætlun í haust nema hún boði alvörubyltingu í sjálfbærum samgöngum? Loks gætum við litið á Gretu sjálfa sem brennur af þessari hugsjón 16 ára. Hversu miklu betra gæti samfélagið verið ef hún og jafnaldrar hennar hefðu ekki bara rödd til að vekja okkur, heldur líka völd til að láta okkur gjalda þess í kjörklefanum ef við vöknum ekki? (Gripið fram í: Heyr, heyr.)