149. löggjafarþing — 97. fundur,  30. apr. 2019.

störf þingsins.

[13:38]
Horfa

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég hef oft í þessum stól rætt mikilvægi þess að oftar fari fram umræða um alþjóðamál í samfélaginu. Að undanförnu hefur skapast talsverð umræða um EES-samninginn hér á landi, sem er auðvitað alþjóðamál. Þessi umræða hefur ekki verið tekin í talsverðan tíma hér á landi.

Ástæður þess eru kannski ýmiss konar en ég tel a.m.k. eina vera þá að allir sem eru undir fertugu taka þeim lífsgæðum sem EES-samningurinn færir okkur sem sjálfsögðum hlut. Við njótum þeirra kosta og lífsgæða sem samningurinn færir okkur til að mennta okkur erlendis, geta búið þar og starfað, við njótum lífsgæðanna sem fylgja því að geta stundað frjáls viðskipti milli landa og teljum það allt sjálfsagðan hlut.

Ég velti því upp í blaðagrein hvort við sem styðjum alþjóðasamstarf, frjáls viðskipti o.s.frv., höfum kannski aðeins sofnað á verðinum. Við í Sjálfstæðisflokknum sem höfum verið andsnúin inngöngu í Evrópusambandið — og þar er ég ekki undanskilin — höfum kannski í andstöðu okkar látið það liggja fullmikið á milli hluta að tala um aðra kosti alþjóðasamstarfs. Og eins að þeir sem styðja inngöngu í Evrópusambandið hafi einblínt um of á inngönguna og hunsað aðra mikilvæga þætti, hvernig mætti þróa og móta alþjóðasamstarfið sem við erum í nú þegar.

Ákvörðunin um aðild að EES var góð ákvörðun. Þeir sem hana tóku, tóku ákvörðun um betra samfélag, lífsgæði og betri lífskjör fyrir fólk.

Það er því auðvelt að standa hér og ítreka, og ég ætla að reyna að muna að gera það, að það er mikilvægt að standa vörð um lífskjörin og standa vörð um EES-samninginn.