149. löggjafarþing — 97. fundur,  30. apr. 2019.

störf þingsins.

[13:54]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Ég ætlaði mér að ræða um brottkast á fiski og þær tæknibreytingar sem hafa orðið til að fylgjast með fiskimiðunum en vegna fréttar nú í hádeginu ætla ég að breyta um umræðuefni. Það kom í fréttum að Vegagerðin hefði innkallað bankaábyrgðir vegna nýs Herjólfs. Með leyfi forseta, langar mig að vitna í fréttina:

„Íslenska ríkið hefur krafist þess að skipasmíðastöðin Crist í Póllandi sem smíðar nýjan Herjólf endurgreiði þann kostnað sem greiddur hefur verið vegna smíði skipsins.

Björgvin Ólafsson, umboðsmaður skipasmíðastöðvarinnar hér á landi, segir þetta ígildi riftunar samnings um nýsmíðina. Björgvin segir að ríkið hafi krafist endurgreiðslu á um 85% af 4 milljörðum kr. sem var heildarkostnaður framkvæmdanna.

Björgvin segir að í næstu viku hefjist undirbúningur að sölu nýs Herjólfs. „Þegar þeir eru búnir að fá peningana sína til baka þá er hann ekkert lengur í eigu Íslendinga,“ segir Björgvin.“

Ferill smíðar þessarar ferju hefur verið nánast ein hrakfallasaga og eru breytingar á smíð á tímanum orðnar töluverðar með tilheyrandi kostnaði og töfum eins og fréttir hafa sagt okkur. Í ljósi þessarar fréttar er það sjálfsögð krafa að samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra flytji Alþingi Íslendinga munnlega skýrslu um stöðu mála í þessu samhengi svo fljótt sem verða má.