149. löggjafarþing — 97. fundur,  30. apr. 2019.

utanríkis- og alþjóðamál.

863. mál
[14:06]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Þegar ég tók við embætti utanríkisráðherra á sínum tíma einsetti ég mér að gera umbætur á íslensku utanríkisþjónustunni svo hún yrði enn betur í stakk búin til að mæta áskorunum samtímans. Þegar ég skila þessari þriðju skýrslu minni til Alþingis sé ég glöggt hve mikið hefur áunnist á þessum tíma. Þær skipulags- og áherslubreytingar sem ég setti í forgang á fyrstu vikum mínum í embætti hafa þegar skilað árangri og fyrirhuguð forystuverkefni Íslands á alþjóðavettvangi eru að verða að veruleika hvert af öðru.

Það hefur komið mér þægilega á óvart hversu mikils framlag okkar á alþjóðavísu er metið. Til okkar er horft þegar fjallað er um mannréttindi um allan heim, ekki síst jafnan rétt kvenna og karla. Íslendingar hafa um árabil verið í fararbroddi þeirra ríkja sem nýta auðlindir hafs og lands með sjálfbærum hætti og frá þeirri stefnu verður hvergi hvikað.

Auðvitað má þó margt gera betur. Ég tel að það gerum við best í samstarfi við aðrar þjóðir — en samt ávallt á eigin forsendum. Frjáls viðskipti hafa varðað veginn allt frá upphafsárum fullveldisins þegar fyrsta íslenska sendiráðið var opnað. Íslenskir viðskiptaerindrekar tóku sín fyrstu skref og viðskiptasamningar við önnur ríki litu dagsins ljós.

Síðan treystum við viðskiptasambönd við nágrannaríkin enn frekar með inngöngu í EFTA. Með samningnum um Evrópska efnahagssvæðið fyrir 25 árum síðan opnuðust ný tækifæri fyrir íslensk fyrirtæki á evrópskum mörkuðum. Verndartollar féllu niður og annars konar viðskiptahindranir heyrðu nær sögunni til. Evrópusamstarfið og aðild okkar að EES hefur reynst okkur afar farsælt og tryggt hagsmuni íslenskra fyrirtækja og borgara. EES-samningurinn er gott dæmi um það hvernig náin samvinna hefur skilað sér í aukinni virðingu fyrir réttindum launafólks og almennings, bættum hag neytenda, yfirgripsmikilli þátttöku í evrópsku rannsóknar- og vísindastarfi og síðast en ekki síst hindrunarlausum viðskiptum við annan stærsta neytendamarkað í heimi.

Regluverk sem innleitt er á þessum grundvelli getur virst flókið en það hefur í langflestum tilfellum orðið samfélaginu öllu til hagsbóta. Ég er þess fullviss að ef við höldum rétt á spilunum þegar kemur að hagsmunagæslu á vettvangi EES tryggjum við að svo verði áfram. Það hefur enda verið eitt af forgangsmálum mínum í utanríkisráðuneytinu.

Í þessu sambandi er mikilvægt að hafa í huga að þessi mikli ávinningur hefur fengist án þess að Ísland hafi þurft að fórna sínum hagsmunum svo nokkru nemi.

Íslenska sjávarútvegsstefnan, ein aðalundirstaða hagsældar okkar, stendur sem fyrr óhögguð og á forsendum Íslands. Að sama skapi tekur landbúnaðarstefna okkar mið af íslenskum aðstæðum. Við erum ekki hluti af tollabandalagi sambandsins og getum stundað frjáls viðskipti og gert fríverslunarsamninga við þá sem okkur sýnist.

Á grundvelli þessarar sérstöðu hafa Ísland og hin EFTA-ríkin getað tryggt áframhaldandi samstarf og viðskipti við Bretland, hvort sem Bretar ganga úr ESB með eða án samnings.

Frá upphafi ráðherratíðar minnar hef ég lagt höfuðáherslu á að hagur Íslands vegna Brexit verði tryggður. Ég er mjög stoltur af því hversu vel utanríkisþjónustunni hefur tekist að greina hagsmuni okkar og undirbúa allar mögulegar sviðsmyndir í ljósi óvissunnar. Gangi Bretland úr Evrópusambandinu án tollabandalags er ég sannfærður um að Bretar verða dyggir bandamenn við að efla alþjóðaviðskipti. Ljóst er að herða þarf róðurinn ef okkur á að takast að sporna við einangrunarstefnu og bæta alþjóðaviðskiptakerfið.

Undanfarin misseri hef ég skerpt enn frekar áherslu okkar á utanríkisviðskipti, enda eru þau mér sérstakt hjartans mál. Hagsmunagæsla Íslands hefur verið aukin til muna í takt við áherslu ríkisstjórnarinnar á bætta framkvæmd EES-samningsins. Staða fagráðuneyta og sendiráðsins í Brussel hefur verið styrkt til að gera þeim sem þar starfa kleift að hafa áhrif á regluverk á fyrstu stigum en ríkisstjórnin forgangsraðar áherslumálum í hagsmunagæslu árlega. Til að tryggja áframhaldandi hagvöxt og velsæld á Íslandi verður að auka útflutningsverðmæti þjóðarbúsins umtalsvert á næstu árum. Í því skyni hefur samstarf við atvinnulífið verið eflt, m.a. í tengslum við nýja Íslandsstofu og nýskipað útflutnings- og markaðsráð. Í samstarfi við sendiskrifstofu Íslands erlendis er Íslandsstofu ætlað að greina betur tækifæri á mörkuðum og veita fyrirtækjum í útrás enn betri þjónustu. Á grundvelli þessa verður einnig unnið að því að tryggja fyrirtækjum bestu mögulegu viðskiptakjör svo að þau kjósi áfram að starfa á Íslandi. Það gerum við m.a. með því að stækka fríverslunarnet Íslands sem nær um þessar mundir til 74 ríkja.

Leitast verður við að fjölga enn frekar samningum á sviði tvísköttunar, fjárfestinga og loftferða sem stuðla að auknum viðskiptum og laða að fjárfesta. Þá verður áfram leitast markvisst við að ryðja úr vegi öðrum viðskiptahindrunum, t.d. varðandi heilbrigðisvottun á íslensku kjöti og fiski.

Frá því að ég tók við embætti hef ég átt hátt í 150 fundi með ráðherrum og fulltrúum annarra ríkja, ekki síst í þeim tilgangi að liðka fyrir viðskiptum. Þannig hefur okkur m.a. tekist að koma á samkomulagi sem greiðir fyrir beinum flugsamgöngum milli Íslands og Japans og samkomulagi sem greiðir fyrir útflutningi íslenskra landbúnaðarvara til Kína. Fleiri slíkir samningar líta brátt dagsins ljós.

Ekki má heldur gleyma tímamótasamkomulagi um viðskiptasamráð Íslands og Bandaríkjanna sem við Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, gerðum þegar hann kom í heimsókn hingað til lands í febrúar.

Gott orðspor lands og þjóðar er gulls ígildi þegar kemur að útflutningi á vöru og þjónustu. Á undanförnum árum hefur knattspyrnulið okkar unnið hug og hjörtu fótboltaunnenda víða um heim. Utanríkisþjónustan, Íslandsstofa og Stjórnarráðið tóku öll höndum saman í fyrra við að nýta öll sóknarfæri sem fólust í þátttöku íslenska karlalandsliðsins á heimsmeistaramótinu í Rússlandi. Í aðdraganda mótsins var einnig lögð áhersla á að miðla upplýsingum til íslenskra stuðningsmanna landsliðsins svo ferðalög þeirra gengju hnökralaust fyrir sig. Borgaraþjónustan stóð vaktina og leysti úr vanda þeirra sem til hennar leituðu í stóru og smáu.

Borgaraþjónustan er raunar eitt umfangsmesta verkefni utanríkisþjónustunnar. Tæplega 50.000 Íslendingar, nærri 14% þjóðarinnar, búa utan landsteinanna. Þá eru ekki meðtaldir þeir sem eiga fasteignir erlendis og dvelja þar langdvölum, þótt þeir hafi fasta búsetu hér á landi. Í ljósi ferðagleði landans undrast kannski enginn að borgaraþjónustan greiði úr þúsundum erinda á hverju ári. Nýverið hófst stefnumótunarvinna sem ætlað er að bæta þjónustuna og gera hana skilvirkari.

Það er ekki aðeins á fótboltavellinum sem Íslendingar hafa staðið sig vel. Árangur okkar í jafnréttismálum hefur sömuleiðis aukið veg okkar á alþjóðavettvangi. Til okkar er leitað í vaxandi mæli eftir ráðgjöf og upplýsingum um þau málefni. Það á ekki síður við um stöðu mannréttinda á Íslandi og málafylgju á alþjóðavettvangi. Á sínum tíma varð ég fyrstur íslenskra utanríkisráðherra til að taka þátt í störfum mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna og allar götur síðan hef ég fylgst af athygli og ánægju með því hvernig okkur hefur vaxið þar ásmegin. Í fyrrasumar fékk Ísland víðtækan stuðning til að gegna veigameira hlutverki með kjöri til setu í ráðinu.

Framganga Íslands hefur í raun vakið athygli á heimsvísu og er til marks um hve mikil áhrif lítil ríki geta haft. Besta dæmið er vafalaust forysta Íslands á vettvangi ráðsins þegar ástand mannréttinda í Sádi-Arabíu var gagnrýnt. Sú gagnrýni átti án efa þátt í að nýverið var nokkrum konum sem berjast fyrir mannréttindum í landinu sleppt úr varðhaldi. Kjörtímabil okkar er nú ríflega hálfnað og við höfum einsett okkur að láta að okkur kveða. Ég hef t.d. talað tæpitungulaust fyrir því að mannréttindabrjótar sem sitja í mannréttindaráðinu bæti ráð sitt og hugi að breytingum heima fyrir. Samstillt átak eins og í tilfelli Sádi-Arabíu og Filippseyja, þar sem við höfum fengið fjölda annarra ríkja í lið með okkur, hefur borið árangur.

Jafnréttismálin eru áherslumál á vettvangi mannréttindaráðsins, eins og í öllum okkar störfum. Við vitum að með því að tryggja konum jöfn tækifæri til þátttöku á öllum sviðum samfélagsins getum við skapað friðsælla samfélag og aukna hagsæld á heimsvísu.

Það er góðra gjalda vert að efla jafnréttisstarf í útlöndum en óneitanlega verður holur hljómur í þeim málflutningi ef við vinnum ekki heimavinnuna okkar. Í utanríkisráðuneytinu hafa nú verið innleiddar áætlanir til að koma í veg fyrir hvers konar áreitni og við höfum haldið rakarastofuráðstefnu til að efla vitund starfsmanna um hvernig við getum komið í veg fyrir hvers kyns mismunun. Í mars fékk ráðuneytið svo jafnlaunavottun.

Næsta sumar verða einnig ákveðin kaflaskil þegar konur verða í meiri hluta þeirra sem gegna sendiherrastöðu í tvíhliða sendiráðum Íslands. Fyrstu kvensendiherrar Íslands í Washington og Berlín taka við lyklavöldum í ágústmánuði og þá verða einnig þrír af fjórum sendiherrum Íslands á Norðurlöndunum konur. Það er vel við hæfi þar sem jafnrétti er eitt þeirra lykilgilda sem sameinar Norðurlöndin í öllu samstarfi, en Ísland er í fararbroddi í norrænu samstarfi á árinu.

Í ár virðast allir vegir liggja til Reykjavíkur. Á þessu ári er Ísland formennskuríki í norrænu ráðherranefndinni, veitir samstarfi norræna utanríkisráðherra (N5) og utanríkisráðherra Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna (NB8) formennsku — og tekur sæti í stjórn Alþjóðabankans í Washington fyrir hönd NB8-ríkjahópsins frá og með miðju sumri. Utanríkisráðuneytið annast framkvæmd verkefna í norrænu ráðherranefndinni en samstarfsráðherra Norðurlanda veitir því starfi forstöðu. Áhersluverkefnin eru á sviði ungs fólks, sjálfbærrar ferðamennsku og málefna hafsins, sem eru sannarlega málefni í deiglunni hér á Íslandi. Yfirskrift formennsku ársins, „Gagnvegir góðir“, er sérlega lýsandi fyrir allt norrænt samstarf en hún er sótt í Hávamál og er henni ætlað að vísa til vináttu Norðurlandanna sem birtist í öflugu samstarfi.

En gagnvegir liggja líka út í heim. Sú vinátta birtist í nær öllu okkar alþjóðasamstarfi. Við njótum þess oft að getað leitað til norrænna kollega til að bera saman bækur og samræma afstöðu þegar við á. Þessi samstaða og samvinna Norðurlandanna er Íslandi sérstaklega mikilvæg í ljósi þess að við höfum takmarkaðan mannauð og fjármuni. Norðurlöndin styðja iðulega hvert annað til áhrifa í alþjóðlegum nefndum og ráðum og er framboð Íslands til setu í framkvæmdastjórn UNESCO dæmi um þá samstöðu.

Í samstarfi við utanríkisráðherra sem ég leiði í ár taldi ég brýnt að leggja áherslu á samskipti Norðurlandanna við Kína og mögulegt samstarf á sviði utanríkisviðskipta. Þá verður gerð úttekt á framkvæmd tillagna Thorvalds Stoltenbergs, fyrrverandi utanríkisráðherra Noregs, um aukið samstarf Norðurlandanna í utanríkis- og öryggismálum og það skoðað hvort óska eigi eftir tillögum um frekara samstarf til næstu tíu ára.

Í vor eru liðin fimm ár frá því að Rússland innlimaði Krímskaga og braut þannig gróflega gegn þjóðarétti. Samstaða vestrænna ríkja og sannarlega mikilvæg þegar kemur að því að verja alþjóðalög og þar hefur Ísland lagt sitt af mörkum. Ég þreytist ekki á að minna á hversu mikilvæg alþjóðalög og virkt alþjóðlegt samstarf eru smáum, herlausum ríkjum eins og Íslandi.

Kjarninn í alþjóðlegu samstarfi Íslands á sviði öryggis- og varnarmála er aðild okkar að Atlantshafsbandalaginu — sem nýverið fagnaði 70 ára afmæli — og tvíhliða varnarsamningur Íslands og Bandaríkjanna. Í þessu samstarfi ábyrgjumst við rekstur íslenska loftvarnakerfisins, eftirlitskerfi með hafsvæðum, samskiptakerfa og annarra mannvirkja og búnaðar á Íslandi. Með reglulegri loftrýmisgæslu og þátttöku í æfingum bandalagsríkja og norræna samstarfsríkja tryggjum við að fullnægjandi viðbúnaður og þekking sé til staðar til að uppfylla alþjóðlegar skuldbindingar Íslands og mæta áskorunum sem Ísland stendur frammi fyrir á þessu sviði.

Liður í þessu var þátttaka okkar í „Trident Juncture“, einni stærstu varnaræfingu sem Atlantshafsbandalagið hefur staðið fyrir á síðari árum. Þótt æfingin hafi að mestu leyti farið fram í Noregi hófst hún hér á landi þegar herskip frá aðildarríkjum komu saman undir sameiginlegri stjórn Atlantshafsbandalagsins. Ísland tók einnig þátt í þeim hluta sem sneri sérstaklega að netöryggi, sem vaxandi ógn steðjar að. Varnaræfinguna bar upp á sama tíma og 75 ár eru liðin frá því að þáttaskil urðu í orrustunni um Atlantshafið, lengstu samfelldu orrustu í síðari heimsstyrjöldinni, þegar bandamenn náðu undirtökunum.

Við það tilefni minntumst við þeirra 100.000 manna sem týndu lífi í átökum á hafi úti. Þar af voru um 200 Íslendingar.

Við eigum það til að gleyma því hversu mikilvægt það var í síðari heimsstyrjöldinni að vinaþjóðir skyldu eiga skjól á Íslandi. Í núverandi öryggisumhverfi er það ekki síður mikilvægt og minnir okkur jafnframt á þýðingu þess að öruggir flutningar á aðföngum og mannafla geti gengið óhindrað fyrir sig á hafinu í kringum Ísland.

Það er líka mikilvægt að hafa í huga þegar rætt er um framtíð norðurslóða að Ísland hefur lengi talað gegn frekari hervæðingu á norðurskautinu og vaxandi hernaðarumsvif Rússa á svæðinu vekja því nokkurn óhug. Við þessu hefur verið brugðist með stórauknu eftirliti með kafbátaumferð og eru umtalsverðar framkvæmdir fyrirhugaðar á mannvirkjum á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli af þeim sökum. Þá hefur gildi stöðugs loftrýmiseftirlits og virkari loftrýmisgæslu sannað sig að undanförnu þegar rússneskar sprengjuflugvélar hafa verið á sveimi á íslenska loftrýmiseftirlitssvæðinu.

Hvað sem núningi í samskiptum vestrænna ríkja við Rússland líður hefur tekist að byggja upp mikilvægan samstarfsvettvang Norðurskautsráðsins. Þar vinna aðildarríkin saman að því að takast á við þær fjölmörgu áskoranir sem felast í hröðum breytingum á svæðinu vegna hlýnunar jarðar. Á næstu dögum tekur Ísland við formennsku í Norðurskautsráðinu og mun leiða þá miklu vinnu sem fram fer á vettvangi ráðsins. Með sjálfbæra þróun að leiðarljósi mun íslenska formennskan m.a. beina kastljósinu að málefnum hafsins, loftslagsmálum og endurnýjanlegri orku, auk stuðnings við samfélög á norðurslóðum. Horft er jafnt til hinna þriggja stoða sjálfbærrar þróunar, umhverfisþátta, félagslegra þátta og efnahagslegra þátta.

Þótt ískyggileg þróun á norðurslóðum vegna loftslagsbreytinga sé öllum jarðarbúum áhyggjuefni verður ekki fram hjá því litið að í henni geta líka falist möguleikar. Þær sjóleiðir sem munu opnast á næstu árum stytta siglingatímann svo um munar, líkt og þegar Súesskurðurinn var opnaður fyrir 150 árum. Lega Íslands í miðju Atlantshafi, rétt við heimskautsbaug, gerir landið að álitlegri tengimiðstöð fyrir ferðir og flutninga lengra til norðurs. Íslensk fyrirtæki búa yfir reynslu og þekkingu sem getur komið að gagni við úrlausn fjölmargra áskorana sem blasa við á svæðinu.

Í umræðum um málefni norðurslóða árétta ég gjarnan að framvindan þar hafi ruðningsáhrif um allan heim. Hröð bráðnun íshellunnar ýtir enn undir loftslagsbreytingar sem eru vá sem við verðum að bregðast við hratt og örugglega. Við megum raunar engan tíma missa í þeim efnum, enda gætir áhrifa loftslagsbreytinga nú þegar.

Í samræmi við áherslur ríkisstjórnarinnar er þróunarsamvinna vaxandi liður í störfum utanríkisþjónustunnar. Í ár tekur Ísland við umfangsmiklu samræmingarstarfi kjördæmis Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna í Alþjóðabankanum með formennsku í samstarfinu til tveggja ára. Á vettvangi Alþjóðabankans hefur tekist að koma á framfæri íslenskri sérþekkingu á sviði jarðhitanýtingar sem kemur þar að miklu gagni. Til stendur að auka enn frekar aðkomu Íslands að verkefnum tengdum sjávarútvegi.

Það hefur einmitt verið mér sérstakt kappsmál að nýta enn betur þá sértæku þekkingu sem við búum yfir á fjölmörgum sviðum við uppbyggingu innviða og atvinnuvega í þróunarlöndum. Þess vegna setti ég á fót nýjan samstarfssjóð atvinnulífs og íslenskra stjórnvalda sem ætlað er að styrkja samstarfsverkefni í fátækari ríkjum og stuðla þar að atvinnusköpun og sjálfbærum vexti. Þær áherslur endurspeglast vel í nýrri þróunarsamvinnustefnu sem lögð hefur verið fyrir þingið.

Þróunarsamvinnustefnan byggist á heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna sem hafa þegar markað straumhvörf í þróunarsamvinnu nágrannaríkja okkar. Þau munu aðeins nást með samvinnu, ekki síst við almenning og atvinnulíf. Heimsmarkmiðin eru samverkandi og hvíla ekki síst á þeirri grundvallarhugmynd að árangur náist ekki án þess að unnið verði heildstætt að þeim. Þannig dregur t.d. aukin nýting sjálfbærra orkuauðlinda úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda. Menntun fyrir alla og aukin nýsköpun gerir okkur kleift að takast á við áskoranir nútímans og samvinnu allra, þar með talið einkageirans. Og það er nauðsynlegt til að auka velsæld á heimsvísu.

Fyrir nokkrum vikum fékk ég tækifæri til að heimsækja Malaví þar sem Ísland hefur tekið þátt í þróunarsamvinnu í þrjá áratugi. Það var einstök upplifun að sjá þann árangur sem samstarfið hefur skilað. Með því að tryggja þúsundum aðgang að hreinu vatni og heilbrigðisþjónustu hafa Íslendingar bjargað fjölda mannslífa. Ég er sannfærður um að við getum gert enn betur þegar fram í sækir með uppbyggingu atvinnulífs og betri nýtingu náttúruauðlinda í þessu fallega en fátæka landi. Þar getur íslensk sérþekking skipt sköpum.

Bjartsýni mína má ekki síst rekja til okkar eigin sögu. Aldarafmæli fullveldisins á síðasta ári varð okkur öllum tilefni til að líta yfir farinn veg og hugleiða þær miklu framfarir sem hafa orðið á þessum tíma. Þær hefðu aldrei getað orðið án virkrar þátttöku í alþjóðasamstarfi, ekki síst í líflegum utanríkisviðskiptum.

Saga íslenskrar utanríkisþjónustu er þannig samofin sögu fullveldisins og þátttaka okkar í alþjóðlegu samstarfi hefur ávallt verið á grundvelli þess. Ísland hefur alla tíð lagt sitt af mörkum til þeirrar almennu ríkjasamvinnu sem varð að veruleika í kjölfar síðari heimsstyrjaldarinnar. Þannig höfum við kosið að tilheyra hópi lýðræðisríkja Evrópu og Norður-Ameríku. Sú samvinna virðist æ mikilvægari þegar hún er sett í samhengi við strauma og stefnur víðs vegar um heim.

Alþjóðleg samvinna og virk hagsmunagæsla er undirstaða þess að lífskjör og tækifæri hérlendis geti áfram orðið með því sem best gerist í heiminum. Þar er EES-samstarfið lykilþáttur sem og vestræn samvinna í þágu öryggis. Virðing fyrir þjóðarétti er síðan grundvallarforsenda í samskiptum ríkja, ekki síst fyrir minni ríki sem annars hefðu ekki burði til að verja sig gegn ágangi hinna stóru.

Síðast en ekki síst felur þátttaka í alþjóðlegri samvinnu í sér viðurkenningu erlendra ríkja á því að Ísland sé frjálst og fullvalda ríki.